154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staða áforma um stuðning við Grindvíkinga.

[11:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það er samdóma álit okkar færasta fólks að það muni enginn búa í Grindavík næstu misserin. Það er áfall en að sumu leyti kostur að engin óvissa sé þar um því að nú geta íbúar Grindavíkur einbeitt sér að lausnum fyrir sig og sína sem eiga að duga næstu misserin og ríki og sveitarfélög unnið með þeim að slíku. Fyrst þurfum við að finna lausn fyrir fólkið og síðan fyrir fyrirtækin og rekstur Grindavíkurbæjar. Síðasta mánudag var mikill samhljómur í því sem stjórnmálamenn allra flokka sögðu í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um málefni Grindavíkur. Hæstv. forsætisráðherra talaði um að ríkið myndi greiða Grindvíkingum út eigið fé. Þetta yrði gert til tiltekins tíma þannig að Grindvíkingar gætu komið sér upp nýju húsnæði á nýjum stað en hefðu þann valmöguleika eftir tvö ár að meta það að snúa aftur og eiga sitt húsnæði í Grindavík og gera upp við ríkið. Talað var um að Grindvíkingar hefðu val, sem er mikilvægt því að engin ein leið hentar öllum.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði markmiðið vera að gera Grindvíkingum kleift að taka ákvarðanir fyrir sig og sína fjölskyldu um framtíðina, að þau sjálf ráði örlögum sínum. Þrátt fyrir samhljóminn í ræðum stjórnmálamanna eru Grindvíkingar ekki mikið nær um hvað stendur þeim í raun til boða og hvenær. Getur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra staðfest með skýrum hætti að þeir Grindvíkingar sem vilja fái eigið fé sitt greitt út og að þau geti með því innan fárra vikna lagt drög að góðu heimilislífi á öruggum stað? Telur hæstv. ráðherra raunhæft að samhliða aðgerðum ríkisins verði gerðar kröfur um eignatengsl á Grindvíkinga við yfirgefin heimili þeirra, líkt og sumir ráðamenn virðast vilja?