154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

staða áforma um stuðning við Grindvíkinga.

[11:08]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það skiptir nú litlu máli hvort hæstv. ráðherra er sammála því sem ég segi hér eða ekki um upplifun Grindvíkinga. En hins vegar voru þeir Grindvíkingar sem ég ræddi við í gærkvöldi ekki alveg með það á hreinu hvað væri að gerast í næstu framtíð og hvaða skilaboð það væru sem ráðamenn voru að senda þeim. Það er mikilvægt að upplýsingar berist greiðlega til Grindvíkinga, að þau séu höfð með í ráðum um lausnir og að allt sem búið er að ákveða berist skýrt til þeirra eyrna. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa kallað eftir Grindvíkingum til sín og bent á að þar séu lóðir tilbúnar, svo sem fyrir einingahús. Ef af því á að verða að reisa slík hverfi þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Er hæstv. fjármálaráðherra í samskiptum um fjármögnun slíkra húsa líkt og gerðist eftir gosið í Vestmannaeyjum? Er samtal hafið við sveitarfélögin á Suðurnesjum og Grindvíkinga um þann kost? Og kemur sérstakur styrkur til greina til að greiða hratt og vel fyrir slíkri uppbyggingu?