154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni fyrir að taka vel í að eiga þessa sérstöku umræðu hér í dag. Ég hlakka til umræðunnar og einnig að heyra frá hv. þingmönnum. Heilbrigðismál eru í hugum margra einhver mikilvægasti málaflokkurinn sem við ræðum hér og í samfélaginu enda oft um heilsu fólks og líf að ræða. Ég vil meina að aðgangur að góðri heilbrigðisþjónustu sem almenningur hefur aðgang að, og þá ekki síst fjárhagslegan aðgang að, sé einn af meginþáttum þess sem skilgreinir gott velferðarsamfélag. Hér á landi ríkir sátt um að heilbrigðiskerfið sé rekið af hinu opinbera án hagnaðarsjónarmiða enda hefur heilbrigðiskerfið verið rekið á félagslegum grunni frá síðari hluta 20. aldarinnar og segja má að opinbert heilbrigðiskerfi sé hluti af samfélagssáttmála Íslendinga. Ég vona það að hér í þessari umræðu verði henni ekki drepið á dreif með því að fara að tala um frjáls félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, sem einnig er löng hefð fyrir hér á landi, en, og þetta er mikilvægt en, eru ekki rekin með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.

Undanfarin misseri hefur borið á aukinni útvistun verkefna, þar á meðal þriðja stigs heilbrigðisþjónustu eða sjúkrahúsþjónustu til einkarekinna sjúkrahúsa. Hér er m.a. um að ræða útvistun liðskiptaaðgerða til einkaaðila sem marka í mínum huga ákveðin vatnaskil, ekki síst í ljósi þeirrar uppbyggingar sem verið hefur hjá hinu opinbera með liðskiptasetri á Akranesi sem tók til starfa fyrir fáeinum misserum. Það hafa komið tímabil þar sem útgjöld ríkisins til einkareksturs hafa aukist um tugi prósenta meðan þau hafa nánast staðið í stað til opinbers reksturs. Í undirbúningi fyrir þessa umræðu sá ég m.a. ummæli frá þáverandi landlækni árið 2017 sem talaði einmitt um þetta. En þessi tölfræði tók reyndar stakkaskiptum þegar Svandís Svavarsdóttir, hæstv. matvælaráðherra, tók við í heilbrigðisráðuneytinu árið 2017 og efldi mjög opinbera hluta kerfisins og þá ekki hvað síst heilsugæsluna. Hið opinbera kerfi þarf að standa af sér orrahríð, sérstaklega frá hægri, um óhagkvæmni og óskilvirkni, en sú leið hægri manna að skerða fjármögnun til opinberra innviða og kalla síðan eftir hagkvæmum, skilvirkum lausnum er gömul saga og ný. Það sem skýtur kannski skakkast við í þessu öllu er að fjármögnun hins opinbera heilbrigðiskerfis er með besta móti og ég sé ekki að hún kalli á útvistun verkefna. Það allra versta í mínum huga er þó þegar heilsufar fólks er haft að féþúfu og hægt að maka krókinn á veikindum fólks og ég hef áhyggjur af því að við séum að færast í slíka átt.

Því tel ég eðlilegt að hér fari fram umræða um fyrirætlanir ráðherra því að ekki er að merkja að sérstök stefnumótun sé að baki þeim breytingum sem boðaðar hafa verið. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort farið hafi verið í heildstæða stefnumótun um útvistun aðgerða og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu og hver áform ráðherra varðandi einkavæðingu hjúkrunarheimilanna séu. Þá hafa komið fram þau rök að aukin skilvirkni fáist með útvistun, til að mynda liðskiptaaðgerða. Ég vil að ráðherra svari því með hvaða hætti skilvirkni aukist, hvort ráðherra hafi áhrif áform um frekari útvistun aðgerða og þá hvaða aðgerða, á hvaða gögnum slíkar ákvarðanir byggist og hvernig ráðherra ætli að tryggja að útvistun bitni ekki á opinbera kerfinu, m.a. þegar kemur að mannafla. — Ég hlakka til þessarar umræðu.