154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:43]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórninni er að takast að búa til markað fyrir einkaaðila og gróðavon úr skortstefnu í velferðarkerfinu. Nýjasta útspil hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hann kynnti á dögunum með hæstv. fjármálaráðherra, sýnir vel í hvað stefnir. Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili, segir á vef heilbrigðisráðuneytisins. Einkaaðilar byggja, rekstraraðilar leigja húsnæðið og ríkið borgar. Ráðherrar eiga ekki að hafa vald til að einkavæða velferðarþjónustu án umræðu á Alþingi með þessum hætti, sem forseti ASÍ kallar að einkavæða ellina. Hann telur að áform þessi séu stórhættuleg og feli í sér grófustu aðför seinni tíma að velferðarríkinu.

Markmiðið með norrænni velferðarþjónustu er að þjónustan tryggi jafnt aðgengi allra að hágæðaþjónustu óháð efnahag og félagslegri stöðu. Öldrunarþjónusta á Norðurlöndum er fjármögnuð af opinberu fé og var lengi vel einungis veitt af opinberum aðilum. Það hefur þó breyst á síðastliðnum árum og eru nú um 20% þjónustunnar í Svíþjóð og Finnlandi hagnaðardrifin í einkarekstri en innan við 5% í Danmörku og Noregi. Marta Szebehely, prófessor emerítus í félagsráðgjöf við Stokkhólmsháskóla, flutti á sameiginlegum fundi BSRB og ASÍ í júní 2021 erindi um markaðsvæðingu öldrunarþjónustu. Helsta niðurstaða rannsókna hennar er að einkavæðing eða einkarekstur í öldrunarþjónustu eykur ekki hagkvæmni í rekstri, hefur aukinn kostnað í för með sér við eftirlit og eykur á ójöfnuð. Marta er margverðlaunaður fræðimaður sem hefur rannsakað skipulag og einkavæðingu öldrunarþjónustu í Svíþjóð í norrænum og alþjóðlegum samanburði. Mér sýnist hæstv. heilbrigðisráðherra vera að stefna lóðbeint í að gera sömu afdrifaríku mistökin og gerð voru í Svíþjóð og í Finnlandi í þessum efnum.