154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:48]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu tækifæri, að fá að ræða hugsjón í heilbrigðismálum hér og rekstur þeirra. Það hefur einmitt komið mér mikið á óvart hvað orðið einkavæðing kemur oft fyrir þar sem það þekkist nú varla í íslenska heilbrigðiskerfinu nema á þeim tímum þar sem var ekki gerður samningur hér um liðskiptaaðgerðir. Það bjó jú til einkavæðingu af því að þá voru Sjúkratryggingar ekki í forgrunni þannig að það skapaði tvöfalt heilbrigðiskerfi. En það er búið að laga það nú þegar sem betur fer. Það hefur, eins og hefur margoft komið fram hér, reynst vel hjá okkur að hafa blandað kerfi, fá fjölbreyttar lausnir og það gerist ekki nema í svona blönduðu kerfi sem er að skila margfalt meiri skilvirkni og framlegð í íslensku heilbrigðiskerfi heldur en hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við.

Það sem hefur verið vandamál í íslensku heilbrigðiskerfi er kannski fyrst og fremst mönnunin en einmitt þegar við höfum farið leið einkarekstrar og fengið einkaaðilana að borðinu þá hefur heilbrigðisstarfsfólki hér á landi fjölgað. Þegar við breyttum kerfinu varðandi heilsugæsluna og gerðum það þannig að fagfólkið sjálft gæti rekið þjónustuna á sínum forsendum, til að veita sem besta þjónustu til notendanna, þá fjölgaði heimilislæknum gríðarlega. Hvað sáum við í heimsfaraldrinum, af því að það var komið inn á hann áðan? Þá var það einmitt einkareksturinn sem var búinn að fjölga starfsfólki í heilbrigðisstétt hér á landi, það kom heim frá Svíþjóð og Bandaríkjunum og öðrum löndum til að vinna hjá einkareknu einingunum. Það var einmitt fólkið sem við höfðum aukalega í heimsfaraldrinum. Þannig að við þurfum að halda áfram að efla þetta blandaða kerfi, þar sem er tryggt gott aðgengi og skilvirkni, og það er augljóst að það verður gert með auknum einkarekstri.