154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[11:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að þakka fyrir einstaklega skemmtilega og líflega umræðu. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir hans svör og vona að ég fái hér á eftir svör við síðustu spurningunum, m.a. því hvernig ráðherrann ætlar að tryggja að útvistun verkefna bitni ekki á opinbera kerfinu, t.d. þegar kemur að mannafla. Mig langar að þakka sérstaklega hlý orð í minn garð frá hv. þm. Bergþóri Ólasyni um að sósíalisminn hafi skinið í gegn í minni ræðu. Ég er ánægð með að heyra það vegna þess að mér finnst skipta máli að þegar kemur að heilbrigðismálunum þá gildi það sama eins og í svo mörgu öðru, að við sem einstaklingar í samfélagi leggjum til eftir getu og uppskerum eftir þörfum, svo ég vitni nú bara í Karl Marx. Þar eru það nefnilega einstaklingarnir sem eiga að uppskera eftir þörfum. En líkt og ég kom inn á í ræðu minni þá tel ég ekki að aðrir eigi að hagnast sérstaklega á krankleika annarra þótt auðvitað eigi að vera hægt að reka hlutina. Ég get tekið undir það að heilbrigðiskerfið eigi að kosta með fé almennings, hjartanlega sammála því, og að sjúklingurinn eigi alltaf að vera í fyrsta sæti, algerlega. En hvernig er sjúklingurinn í fyrsta sæti ef valið stendur á milli þess að bíða lengi eftir opinberri þjónustu sem er á viðráðanlegu verði eða að þurfa að borga fúlgur fjár til þess að komast í aðgerðir hjá einkaaðilum í einkarekstri? Sjúklingurinn er nefnilega líka skattgreiðandinn. Við getum öll lent í því að vera sjúklingar og verið það á einhverjum tímapunkti og það er þess vegna sjúklingurinn sem fjármagnar heilbrigðisþjónustuna (Forseti hringir.) og hann á rétt á að fá góða þjónustu en ekki að hlutunum sé þannig hagað að aðrir geta haft af því ótæpilegan gróða eins og ég hef áhyggjur af að geti orðið.