154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

Útvistun heilbrigðisþjónustu.

[12:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og ítreka þakkir til hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur. Mér finnst umræðan hafa verið góð. Það væri reyndar alveg óskandi, af því að ég byrjaði framsögu mína á að ræða hugtakanotkun og við höfum rætt mikið pólitík þegar kemur að hugtakanotkun — það er ýmislegt sem hefur farið fram í umræðunni sem er mjög gagnlegt en væri líka nauðsynlegt að bregðast við því. Ég lofaði hv. framsögumanni að bregðast við áherslupunktum fjögur og fimm í seinni ræðu og ætla að gera það; um áform um frekari útvistun aðgerða, hvaða aðgerðir og á hvaða gögnum ákvarðanir um frekari einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu byggja.

Ég vil fyrst ítreka það og bara staðfesta að það er engin sérstök einkavæðing í gangi eða markaðsvæðing og það má færa fyrir því mörg rök en fyrst og fremst kannski það sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson kom að hér, að þetta er ekkert sjálfstætt markmið, það er bara verið að nýta kerfið. Þetta er bara leið til að nýta kerfið. Tökum dæmi — af því að Oddný Harðardóttir orðaði það svo ágætlega í sinni fyrri framsögu: Af hverju erum við að semja við sérgreinalækna? Það er til þess að það sé ekki hægt, eins og lögin eru í dag, að rukka aukalega. Það er til heil skýrsla frá Öryrkjabandalaginu um að tekjulægstu hóparnir hafi átt orðið í vandræðum með að borga aukareikninga. Annaðhvort var þá að breyta stefnunni eða semja. Og það var samið. Reikningurinn fyrir þessa aukareikninga er 1,9 milljarðar, áætlaðir. Það er í samhengi við 350 milljarða. Ef þetta er einkavæðing eða markaðsvæðing er einhverju öfugt farið.

Spurning hv. þm. Bergþórs Ólafssonar var góð. Við höfum aukið afköst um 60%. Þeim hefur fækkað sem hafa farið erlendis, sem nýta það tækifæri. (Forseti hringir.) Markmiðið hlýtur að vera, ég tek undir með hv. þingmanni, að nýta alla þekkinguna sem er hérlendis til að gera þessar aðgerðir. Við eigum hana til (Forseti hringir.) og eigum að geta það.