154. löggjafarþing — 59. fundur,  25. jan. 2024.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

618. mál
[12:36]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi frú forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um um breytingu á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sem er nr. 94 frá síðastliðnu ári, 2023.

Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér framlengingu á gildistíma heimildar til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings til Grindvíkinga um fjóra mánuði, til loka júní 2024. Jafnframt er lagt til að úrræðið verði rýmkað að tvennu leyti eins og ég kem að síðar.

Heimild til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ tók gildi 19. desember 2023 við gildistöku samnefndra laga nr. 94/2003. Er markmið þeirra að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurft hafa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkur vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga. Skv. 4. mgr. 15. gr. laganna nær heimildin til að greiða sértækan húsnæðisstuðning til leigukostnaðar Grindvíkinga sem fellur til á tímabilinu 10. nóvember 2023 til og með 29. febrúar 2024.

Eins og kunnugt er var Grindavíkurbær rýmdur 10. nóvember 2023 eftir að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir neyðarstigi í bænum. Voru þá samkvæmt lögheimilisskrá Þjóðskrár um 1.120 heimili skráð í Grindavík, samtals um 3.730 íbúar. Hefur almannavarnastig í bænum ýmist verið á neyðar- eða hættustigi síðan þá. Eldgos sem hófst í nágrenni bæjarins 14. janúar 2024 jók verulega á það hættu- og óvissuástand sem ríkt hefur í bænum og er ekki fyrirsjáanlegt hvenær vænta má breytinga þar á.

Við rýmingu Grindavíkurbæjar var gripið til ýmissa skammtímaúrræða til að hýsa bæjarbúa en frá þeim tíma hefur verið unnið að varanlegri lausnum á þeim húsnæðisvanda sem íbúar í Grindavík standa frammi fyrir. Má þar nefna kaup leigufélaganna Bríetar og Bjargs á íbúðum til útleigu til Grindvíkinga og sérstakt leigutorg fyrir Grindvíkinga. Sértækur húsnæðisstuðningur til lækkunar á húsnæðiskostnaði íbúa í Grindavík er mikilvægur hluti þessa viðbragðs.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun höfðu vel á fimmta hundrað heimila í Grindavík sótt um sértækan húsnæðisstuðning frá gildistöku laganna fram í miðjan janúar 2024 er eldgosið hófst í nágrenni bæjarins. Hafði stofnunin þá gert ráð fyrir að um 600 heimili myndu sækja um slíkan stuðning áður en mánuðurinn væri á enda. Í ljósi nýliðinna atburða er hins vegar talið að mun hærra hlutfall íbúa í Grindavík en áður muni nýta þetta úrræði eða allt að 85–95% heimila.

Ljóst er að á næstu mánuðum verður áfram þörf fyrir bæði sértækan húsnæðisstuðning við íbúa Grindavíkurbæjar sem og önnur þau úrræði sem gripið hefur verið til vegna húsnæðisvanda þeirra. Jafnframt er mikilvægt að reyna að skapa stöðugleika í húsnæðismálum Grindvíkinga eins og hægt er á meðan þetta ástand varir og varanlegri lausnir eru í undirbúningi. Því er í frumvarpi þessu, eins og áður segir, lagt til að gildistími sértæks húsnæðisstuðnings verði framlengdur til loka júní 2024.

Auk þess að kveða á um þessa framlengingu á gildistíma eru lagðar til tvær efnislegar breytingar á úrræðinu til rýmkunar. Í fyrsta lagi er lagt til að þak á hlutfalli sértæks húsnæðisstuðnings af húsnæðiskostnaði verði hækkað úr 75% í 90%. Með því er brugðist við ákalli sem fram hefur komið um að betur þurfi að koma til móts við Grindvíkinga vegna þess kostnaðar sem fylgir því að afla sér annars heimilis utan Grindavíkur í þeim aðstæðum sem íbúar standa frammi fyrir.

Þá er jafnframt lögð til sú breyting á hámarki sértæks húsnæðisstuðnings miðað við fjölda heimilismanna að í stað þess að efsti flokkur miðist við fjóra heimilismenn eða fleiri verði hann miðaður við sex heimilismenn eða fleiri og hámarksfjárhæð í efstu flokkunum hækki því til samræmis. Er með þessu komið betur til móts við þarfir stórra heimila, en í nýlegri könnun á húsnæðisstöðu Grindvíkinga kemur m.a. fram að hjá um fjórðungi svarenda eru fimm eða fleiri í heimili.

Eftir að frumvarp þetta var lagt fram hefur komið fram að til viðbótar kunni að vera tilefni til að hækka hámarksfjárhæð sértæks húsnæðisstuðnings við einstaklinga, þ.e. heimili með aðeins einum heimilismanni, annað hvort með því að hækka hámarksfjárhæðina eða sameina flokka heimila með einum og tveimur heimilismönnum. Ég vil nota tækifærið og beina því til hv. velferðarnefndar að hún taki þetta til skoðunar í umfjöllun sinni um frumvarpið þó að það sé ekki í tillögunni sjálfri.

Við mat á áhrifum frumvarpsins hefur sem fyrr segir verið gert ráð fyrir að 85–95% heimila í Grindavík komi til með að nýta úrræðið. Miðað við það er áætlað að kostnaður ríkissjóðs verði um 212–237 millj. kr. á mánuði. Á þeim fjórum mánuðum sem framlengingin tekur til, frá 1. mars til 30. júní 2024, má því gera ráð fyrir að heildarkostnaður ríkissjóðs nemi á bilinu 850–950 millj. kr. Gert er ráð fyrir því að það verði fjármagnað með fjárheimild í sérstökum fjáraukalögum sem von er á á næstu dögum vegna náttúruhamfaranna.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar sem og 2. umræðu.