154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

skautun pólitískrar umræðu.

[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Samfélagið okkar er auðvitað dásamlegt en ég verð þó að segja að ég hef ákveðnar áhyggjur. Ég skynja ákveðið óöryggi, ég skynja ótta fólks á mörgum sviðum. Auðvitað búum við við stanslausa óvissu þegar kemur að sjálfri náttúrunni og hún er ekkert á okkar valdi. Við þekkjum það og við kunnum að kljást við það. Hitt er síðan ótti sem er að mínu mati manngerður; ótti og óöryggi sem beinlínis er verið að spila inn á og er á okkar valdi.

Ég hef síðastliðnar vikur orðið vör við fleiri og fleiri mál sem einn öflugur stjórnarflokkur er sífellt að spila fram, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, kannski skyndilega í veikri von um að ná hljómgrunni meðal almennings meðan fylgið er í frjálsu falli. En þetta er alvarlegt. Við erum að sjá þetta í orkumálunum, það er óeining þar á stjórnarheimilinu. Við erum að sjá þetta í umræðu um gullhúðun og einföldun regluverks, eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn er til að mynda búinn að bera ábyrgð á í tíu ár samfellt. Við erum að sjá þetta í kjaramálum. Svo er auðvitað nýjasta útspilið í útlendingamálum. Öll þessi mál eiga það sammerkt að hafa verið í áraraðir og jafnvel áratug samfellt á forræði Sjálfstæðisflokksins — ekki ríkisstjórnarinnar heldur Sjálfstæðisflokksins sem er í ríkisstjórn, (Gripið fram í.)ef hæstv. forsætisráðherra tekur ekki eftir því.

Akkúrat á þeim tímum þegar þjóðin þarf á festu, stjórnfestu og öryggi að halda þá er þetta tónninn sem kemur frá stjórnarheimilinu. Það er að mínu mati alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn í krísu nýta völdin sín og röddina með þessum hætti, að breikka gjána og búa til farveg fyrir óöryggi og ótta í samfélaginu.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig þetta slær hana, hvort hún sé sátt við það hvernig samstarfsflokkurinn, núna hátt á sjöunda ár, er að fara aftur og aftur þessa leið, (Forseti hringir.) að vera ekki í samstarfi við aðra ráðherra í ríkisstjórn grefur undan trausti gagnvart öðrum ráðherrum og þingmönnum (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna. Og það sem alvarlegast er, það grefur undan öryggi og samstöðu, að mínu mati, meðal þjóðarinnar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann lítur á þessa óeiningu og þessa óttapólitík sem að mínu mati er hættuleg en er verið að tromma upp.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er tvær mínútur (Gripið fram í.)í fyrri umræðu en ein mínúta í hinni síðari.)