154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

skautun pólitískrar umræðu .

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka aftur hv. þingmanni sem er alltaf gaman að tala við hér í þessum sal. Örstutt um hið fyrra, þ.e. skautunina. Ég ætla að fá að segja það að ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Það er ábyrgðarhluti að ræða þessi mál og ræða þau ekki í upphrópunum og ég held að við þurfum einfaldlega, eins og svo mörg önnur samfélög sem hafa gengið í gegnum miklar samfélagsbreytingar, að horfa á þessi mál heildstætt, eins og ég var að leitast við að gera, vera ekki að benda á sökudólga heldur reyna einmitt að nálgast málin heildstætt út frá einhverri framtíðarsýn. Ég veit alveg að okkur hefur ekki lánast það á undanförnum misserum og árum. Það er miður. En ég vil svo sannarlega leggja mitt af mörkum til að svo megi verða.

Hvað varðar ákall hv. þingmanns um kosningar þá ætla ég að spara mér að boða til þeirra alveg strax. (ÞKG: Innan tíðar.) Það er mikið rætt um stöðuna og ég ætla ekkert að draga neina dul á það að þetta eru ekki sömu flokkar, við erum heldur ekki í fjölskyldu saman, þessir flokkar. Við öxlum ekki ábyrgð hvert á öðru eins og móðir axlar ábyrgð á börnum sínum. (Forseti hringir.) Þegar einstakir þingmenn og einstakir ráðherrar segja sínar skoðanir verða þeir líka að bera ábyrgð á því sjálfir. Ég ætla bara að leyfa mér að segja það, bæði sem móðir og forsætisráðherra.