154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttaka þeirra.

[14:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Innflytjendur eru nú um 18% af heildarfjölda landsmanna og í mörgum samfélögum eru innflytjendur yfir 20% íbúa, það á t.d. við í Fjarðabyggð þar sem ég bý, og það eru dæmi um mun hærra hlutfall, hæst yfir 60% í Mýrdalshreppi og kringum 30% í nokkrum sveitarfélögum eins og Hornafirði, Tálknafirði og Reykjanesbæ. Seinni hluta síðasta árs voru innflytjendur um 23% af heildarfjölda starfandi á Íslandi. Atvinnuþátttaka innflytjenda er mun meiri en í öðrum norrænum ríkjum. Almenn atvinnuþátttaka á Íslandi er 82% sem er hátt í alþjóðlegum samanburði en atvinnuþátttaka innflytjenda er þó enn meiri eða tæplega 87%. Innflytjendur sinna mikilvægum störfum, t.d. í fiskvinnslu eða iðnaði, ferðaþjónustu og í vaxandi mæli heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Margir innflytjendur sinna störfum þar sem ekki er gerð krafa um menntun og það oft þrátt fyrir að vera jafnvel með sérhæfða menntun sem mikil þörf er fyrir á íslenskum vinnumarkaði. Að fjárfesta í fólki til framtíðar er eitt af leiðarljósum Framsóknar og þær áherslur endurspeglast í stjórnarsáttmála, m.a. þar sem segir: „Tryggja þarf að innflytjendur sem hér vilja búa og starfa fái tækifæri til aðlögunar og geti nýtt hæfileika sína, þekkingu og reynslu.“

Í því ljósi vil ég spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra: Hvert geta innflytjendur leitað til að fá sína menntun metna og hvernig fer mat á menntuninni fram? Ég spyr líka hvort og hvernig unnið er að því að tryggja aðgengi að mati á menntun. Gildir það sama t.d. um háskólamenntaða og iðnmenntaða?