154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttaka þeirra.

[14:14]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra svörin og af þeim er ljóst að verkefnin dreifast á margar stofnanir og ráðuneyti. Eðli málsins samkvæmt þurfa þeir sem þekkja til menntunar og færniþarfa í viðkomandi störfum að koma að mati starfsréttinda og menntunar og þess vegna er verkefnið víða. Mér finnst gott að heyra að það er unnið að því að koma á einhverjum einum farvegi af því að ég held að við getum komið upp skilvirkara umsóknarferli og haft það miklu skýrara hvernig matinu er háttað gagnvart um umsækjandanum. En ég sé líka fyrir mér að það þurfi að skýra betur ábyrgð skóla, bæði háskóla og framhaldsskóla, við mat á námi og í framhaldinu framboði á því námi sem kann að vanta upp á. Ég held að við getum gert þetta, aukið skilvirknina mikið, án þess að slaka á kröfum til menntunar.