154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.

17. mál
[18:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma hérna upp. Ég er einn af meðflutningsmönnum á þessari þingsályktunartillögu sem ég tel afskaplega mikilvægt að nái fram að ganga. Það er auðvitað ánægjulegt að sjá að ráðherra er líka sjálfur kominn af stað eða búinn að hrinda í framkvæmd hér verkefni sem styður svo sannarlega við þetta. Því miður er það svo að of mörg okkar líklega þekkja eða eiga fjölskyldur sem hafa orðið fyrir þeim ósköpum að einhver þeim nákominn hefur tekið eigið líf. Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram að það eru svo margar ástæður sem kannski valda því að þetta er úrræði sem einstaklingurinn velur sér og það er mikilvægt að safna gögnum um það til þess að hjálpa okkur að fækka þessum sjálfsvígum. Hér er talað um að það séu í kringum 6.000 manns sem verða fyrir áhrifum af þeim á hverju ári.

Mér finnst líka áhugavert það sem hér er tekið fram í greinargerðinni með frumvarpinu, þegar við settum af stað aðgerðir til að sporna við umferðarslysum sem hafa skipt miklu máli og haft áhrif þó að sannarlega byrji þetta ár ekki vel hvað það varðar, það er svo sannarlega óhætt að segja það, en núna erum við að missa fleira fólk úr sjálfsvígum heldur en í umferðarslysum. Eins og hér kom fram hjá síðasta ræðumanni þá eru það auðvitað kannski mun fleiri en maður veit af því það er ekki alltaf tilgreint. Ef hægt er að koma í veg fyrir eitt einasta þá er það það sem skiptir máli þannig að ég held að þetta sé eitt af því sem þingið getur sameinast um að ráðist verði í því að ég held að samfélagið allt saman hljóti að styðja við bakið á því að farið verði í ítarlega öflun á upplýsingum til að koma í veg fyrir sjálfsvígstilraunir eða sjálfsvíg yfirleitt. Það er kannski það sem þessari tillögu er ætlað að reyna að gera, að safna gögnum og ástæðum fyrir því hvað það er sem dregur fólk í þetta óyndi sem er lokaúrræði hvers og eins, hlýtur að vera, að sjá ekki neins staðar ljós.

Ég vildi rétt aðeins koma hérna upp og þakka fyrir þessa fínu þingsályktunartillögu því að ég held, eins og ég segi, að þetta sé eitthvað sem þingið geti sameinast um að nái fram að ganga.