154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

aukin verðmætasköpun við nýtingu þörunga.

25. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Með mér á málinu eru hv. þingmenn Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Eyjólfur Ármannsson.

Þingsályktunartillagan er lögð fram í þriðja sinn. Hún var fyrst lögð fram á 151. löggjafarþingi af Silju Dögg Gunnarsdóttur, þáverandi þingmanni Framsóknar, en er nú endurflutt af þeirri sem hér stendur með nokkrum breytingum.

Tillagan felur í sér að Alþingi feli matvælaráðherra í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Starfshópurinn leggi áherslu á eftirfarandi:

1. Hvernig lög og reglur styðji við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða á landi.

2. Hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varði öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.

3. Hvernig styrkja megi eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungaræktun innan viðeigandi stofnana.

Í tillögunni kemur fram að starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2024, en sú dagsetning nálgast óðfluga og því þyrfti að gefa lengri tíma.

Vaxandi markaður er fyrir þörunga og afurðir þeirra í heiminum en villtir þörungar eru takmörkuð auðlind. Þetta eru oft og tíðum mjög dýrar vörur og skapa því mikil verðmæti. Hér á Íslandi eru, eins og við vitum, kjöraðstæður fyrir bæði öflun og ræktun þörunga úr sjó ásamt ræktun á landi.

Með leyfi forseta vil ég lesa upp samantekt úr skýrslunni varðandi þörungaeldi á Íslandi en þar segir:

„Ísland getur stutt við þörungaeldi með því að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa sett stefnur og reglur til að ýta undir sjálfbæran vöxt greinarinnar. Sértækt regluverk um smáþörungaframleiðslu á Íslandi er ekki til en vöntun á því mun sennilega ekki hamla vexti verulega. Krafa um skráningu á framleiðslumagni, tegundum og tengdum framleiðsluferlum, gæti hins vegar nýst stjórnvöldum til að styðja betur við greinina og auðvelda nýjum aðilum að taka sín fyrstu skref. Að auki gæti aukinn fyrirsjáanleiki varðandi aðgengi að helstu aðföngum (vatni og orku) stuðlað að frekari vexti greinarinnar.

Sérstök löggjöf um stórþörungaræktun á Íslandi er ekki til og hefur það staðið í vegi fyrir vexti í greininni. Hægt væri að læra af reynslu Norðmanna, Færeyinga, Dana og Skota og þeim aðgerðum sem þar hafa verið innleiddar til að styðja við vöxt. Aðgerðir eins og að gefa stórþörungaeldi gaum í stefnumótun, veiting tímabundinna þróunarleyfa, setja gildistíma rekstrarleyfa til nægilega langs tíma og gerð skýrs reglu- og leyfisveitingakerfis fyrir sjálfbæra stórþörungaframleiðslu …“

Ræktun og nýting þörunga hefur hverfandi umhverfisáhrif þar sem ferlið krefst hvorki vatnsnotkunar né áburðar eða eiturefnanotkunar og þarf aðeins takmarkað landsvæði. Rannsóknir benda til þess að sjálfbærar öflunaraðferðir á þörungum hafi ekki neikvæð áhrif á lífríkið til lengri tíma. Þararæktun á línum í sjó, sem nú þegar er stunduð við Ísland og víðar í heiminum, er einnig líkleg til að auka kolefnisbindingu og vinna þar með gegn súrnun sjávar. Ísland er hluti af OSPAR-samningi sem fjallar um vernd Norðaustur-Atlantshafs. Súrnun sjávar er aukaafurð losunar á koltvísýringi út í andrúmsloftið og gleypir sjórinn því aukið magn koltvísýrings. Við það verða efnaskipti sem lækka sýrustig sjávar sem hefur skaðleg áhrif á lífríki hafsins. Jón Ólafsson, prófessor í haffræði, segir að súrnun sjávar sé hraðari við strendur Íslands en á öðrum hafsvæðum í heiminum. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þörungar eru um 400 sinnum virkari en tré í bindingu koltvísýrings, þeir eru ekki bara skilvirkari hvað varðar kolefnisbindingu heldur þurfa þeir mun minna rými en trjárækt.

Eins og þegar er getið framleiða þörungar með ljóstillífun að minnsta kosti um helming alls þess súrefnis sem við drögum að okkur. Sumir vísindamenn telja að hlutfallið sé 90%. Þörungategundir hafa mismunandi vaxtarhraða en til eru tegundir sem geta vaxið meira en 65 cm á dag og tífaldað lífmassa sinn á sex til átta vikum.

Þörungar eru ekki aðeins næringarrík fæðutegund sem framleiðir mikið magn súrefnis heldur má einnig nýta þá til framleiðslu á lífeldsneyti og fóðri og sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Framleiða má lífeldsneyti hérlendis í miklu magni svo að það geti komið í staðinn fyrir innflutt eldsneyti og þannig dregið úr neikvæðum áhrifum eldsneytisnotkunar á umhverfið.

Því er ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Möguleikar á frekari nýtingu þörunga til hagsbóta fyrir umhverfið eru þannig miklir og gætu verið lykillinn að því að leysa einhverjar af þeim áskorunum sem við okkur blasa til að tryggja fæðuöryggi kynslóða framtíðarinnar. Þá má sannarlega segja að framtíðin sé núna og því er ekki seinna vænna en að byrja að nota þessa dásamlegu sjálfbæru auðlind sem finna má í fjörum okkar.

Þótt Egill Skallagrímsson hafi ekki talið söl til matar þá eru þörungar sannkölluð ofurfæða. Þeir innihalda oft 10–100 sinnum meira af vítamínum en ávextir og grænmeti og eru einnig ríkari uppspretta steinefna, snefilefna og ýmissa lífvirkra efna en flestur matur sem á uppruna sinn á landi. Sumar tegundir eru einnig prótínríkar.

Í skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi, sem gerð var fyrir tilstilli matvælaráðuneytisins og birt 28. febrúar á síðasta ári, kemur fram að markaður fyrir þörunga hefur vaxið töluvert á heimsvísu síðustu ár. Nýting þörunga hefur þróast og eftirspurnin hefur fylgt þeirri þróun. Í þessum markaðsaðstæðum felast umtalsverð tækifæri hér á landi í þörungaeldi. Þeir ófáu kostir sem fylgja ræktun, verkun og nýtingu þörunga hafa skapað vinsældir á vörunni sem sjálfbær uppspretta næringar fyrir menn og dýr. Einnig eru jákvæð umhverfisáhrif þörunga talin vera til þess fallin að auka vinsældir þeirra enn frekar með vaxandi áherslu á umhverfismál og kolefnishlutleysi.

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Í framangreindri skýrslu Boston Consulting Group er áætlað að á næstu tíu árum stækki markaðurinn um u.þ.b. 7–9% á ári og verði metinn á um 15–20 milljarða evra. Í þessum markaðsaðstæðum felast umtalsverð tækifæri, m.a. hér á landi þar sem Ísland býr yfir náttúrulegum skilyrðum sem veita fyrirtækjum sem hér starfa forskot. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá því í júlí 2020 var áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótín 912,8 milljónir dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vaxandi eftirspurn sé eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem innihalda þörunga. Ísframleiðendur eru líka farnir að bæta örþörungum við afurðir sínar til að auka næringargildi vörunnar. Sem stendur framleiða þessi fyrirtæki mikið úrval af vörum úr þörungum. Þar er m.a. að finna andoxunarefni, prótín og bragð- og litarefni. Nú má finna á veitingastöðum um allan heim vörur sem innihalda að einhverju leyti efni úr þörungavinnslu. Efnin er líka að finna í bjór, snyrtivörum, græðandi kremum og mörgum öðrum vörum.

Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins í ár og að veltan verði um 1,1 milljarður bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá því í nóvember árið 2019. Mörg fyrirtæki eru að taka sín fyrstu spor á þessu sviði og þess má vænta að veltuaukningin í greininni verði allveruleg á næstu árum. Önnur fyrirtæki eru þegar í startholunum og að meðaltali hefur komið fram eitt nýtt fyrirtæki í þörungaframleiðslu eða nýtingu þörunga á ári frá 2012. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf. Sum fyrirtækjanna gera ráð fyrir mjög hröðum vexti.

Á tímum sem þessum er fæðuöryggi mikilvægt. Fleiri skynja án efa mikilvægi öflugrar matvæla- og heilsuefnaframleiðslu hér á landi og eðlilegt er að horfa til þess hvaða frekari tækifæri kunna að vera fyrir matvælalandið Ísland á komandi árum. Við strendur landsins eru víðfeðmir þaraskógar sem geta orðið enn ein stoðin í eflingu landsins sem matvæla- og bætiefnalands. Þörungategundir eða efni unnin úr þeim eru nú þegar hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þörungamjöl eða þörungaþykkni er metið að verðleikum um allan heim og er það flutt héðan lífrænt vottað. Tækifæri eru falin í frekari nýtingu þörunga við framleiðslu matvæla og fæðubótarefna.

Fyrstu heimildir um iðnaðarframleiðslu á þangi eru frá 17. öld þegar framleidd var pottaska sem notuð var í glersmíði og í framleiðslu á sápu. Í kringum árið 1800 fluttu Norðmenn út um 1.500 tonn af pottösku. Nú eru þörungar m.a. notaðir til matar, bæði beint og óbeint, sem fóður, í lyfjagerð, pappírsgerð, í húð- og hárvörur og sem jarðvegsáburður. Algengt er að finna þykkingarefni unnin úr þörungum í hvers konar vörum, t.d. ís, sultum, hlaupi, súpum, tómatsósu, sinnepi, majónesi, varalit, naglalakki, raksápum, sjampói, húðkremum og tannkremum. Við berum þetta á okkur og étum þetta líka. Einnig er framleiddur næringarríkur líförvandi lífrænn áburður úr þangi og E-efni sem notuð eru sem bindiefni í matvæli, dekk og málningu eru unnin úr þangi.

Eiginleikar þangmjöls eða þaraþykknis eru margir og notkunarmöguleikar þess mismunandi. Áður fyrr nýttu menn helst þang sem fóður og áburð en notagildið hefur aukist til muna í takt við aukna þekkingu og tækni. Það skiptist í þrjá meginflokka; fóður, áburð og fjölsykrur.

Nýsköpun og fyrirtækjarekstur í tengslum við þara hérlendis er að stórum hluta á byrjunar- og vaxtarstigi. Þó er nýsköpun í tengslum við hvers konar þróun á heilsuefnum og lífvirkum efnum úr þessu hráefni þegar komin lengra hér en í nágrannalöndunum. Þá eru einnig tækifæri í þróun þara til að nýta hann í ýmsar umbúðir og fatnað í stað annarra efna sem eru skaðleg fyrir umhverfið. Með því að auka fjárfestingar og rannsóknarstyrki til nýsköpunar við nýtingu þörunga getur Ísland náð enn meiri fótfestu á þessu sviði og skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þara.

Líta ber til þeirra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir í umhverfismálum á alþjóðlegum vettvangi og leita til sérfræðinga og fagfólks á sviði sjálfbærni, þörungaöflunar og nýtingar, svo að nokkuð sé nefnt. Með því að fjárfesta í menntun, rannsóknum og frumkvöðlafyrirtækjum á þessu sviði getur Ísland skapað sér sess.

Hér á landi eru ýmis fyrirtæki komin af stað í þessum málum. Þörungaverksmiðjan á Reykhólum hefur starfað í yfir 50 ár þar sem þangs hefur verið aflað við Breiðafjörð. Sú framleiðsla hefur skipt sköpum fyrir það byggðarlag enda er þetta ekki síður byggðamál ef við sjáum þarna tækifæri til vaxtar vítt og breitt um landið. Ný fyrirtæki eins og Isea í Stykkishólmi búa til verðmætar afurðir úr klóþangi sem þykir sérstakt fyrir þær sakir að það vex aðeins hér á norðlægum slóðum. Hér tel ég tvö fyrirtæki við Breiðafjörð, enda eru þar kjöraðstæður til slíkrar vinnslu þar sem þar er mikill þangvöxtur. Fleiri fyrirtæki starfa í þessum geira hér við land.

Virðulegi forseti. Um 300 tegundir af stórþörungum finnast umhverfis Ísland. Mögulegt er að nýta þörunga í margs konar framleiðslu, t.d. sem íblöndunarefni í matvæli, efni í fiskeldi, efni í dýraeldi, náttúrulyf, fæðubótarefni og snyrtivörur auk þess sem horft hefur verið til framleiðslu á bíógasi og etanóli.

Virðulegi forseti. Ég læt þetta duga og vonast til að fá góða umræðu í nefnd, því að hér er um mikilvægt mál að ræða fyrir íslenska þjóð til framtíðar. Ég legg því til að málinu verði vísað til atvinnuveganefndar.