154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Þegar Lísa í Undralandi spurði köttinn til vegar sagði hann á móti: Hvert ertu að fara? Ég veit það ekki, svaraði Lísa. Þá skiptir ekki máli hvaða leið þú velur, sagði kötturinn. Þetta þekkta samtal úr sögu Lewis Carrolls frá árinu 1865 er óþægilega lýsandi fyrir vegferð ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum, því miður. Alla tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið talað um að styrkja heilsugæsluna, auka þjónustuna og fjölga heilsugæslustöðvum til að minnka álagið á bráðamóttöku Landspítala. Þetta hljómar vel. En ef hæstv. ríkisstjórn byggi í raunheimum, þar sem almenningur býr, þá myndi hún sjá að þetta eru orðin tóm. Þau sem hafa reynt að bóka tíma hjá lækni vita að það er oftar en ekki ómögulegt því að það er búið að loka fyrir tímabókanir. Heimilislæknar búa við þær aðstæður að þeir hafa ekki undan að útbúa tilvísanir til annarra lækna, nú eða til sjúkraþjálfara eða tilvísanir fyrir stoðtæki, hækjur, fullorðinsbleiur eða eitthvað annað. Heilbrigðisstarfsfólkið okkar á annað og betra skilið en svona skriffinnsku- og tilvísanafargan, ekki síst þegar tilgangurinn er óljós og afleiðingarnar eru enn frekara álag á heilsugæsluna. Ríkisstjórnin hefur sett meiri fjármuni inn í heilbrigðiskerfið en henni hefur mistekist að nýta þá fjármuni vel, að nýta þá fjármuni almennilega í þágu notenda. Í samtölum okkar í Viðreisn við forsvarsfólk heilbrigðisstofnana hefur enda skýrt komið fram aukið ákall eftir almennilegri stýringu í kerfinu vegna þess að án slíkrar stýringar er viðbótarfjármunum hreinlega sóað. Munið þið hvernig kötturinn svaraði Lísu? Það er kominn tími til að stjórnvöld hlusti. (Forseti hringir.) Afsakanir um ríkisstjórn sem brúar allt pólitíska litrófið ganga ekki lengur, herra forseti. Það er öllum sama. (Forseti hringir.) Fólk vill bara heilbrigðiskerfi sem virkar.