154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

Störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Fjallað var um afleitar aðstæður fanga í þættinum Kveik í gærkvöldi. Umfjöllunin kom þó engum á óvart sem hér sitja enda hafa aðstæður fanga verið ríkisstjórninni og þeim meiri hluta sem hana styður ljósar um áraraðir. Í þættinum var sýnt svart á hvítu hvernig núverandi stefna í fangelsismálum, eða öllu heldur stefnuleysi, leiðir ekki til betrunar heldur er hún beinlínis skaðleg. Afleiðingin er sú að hér eltast menn við refsistefnu Bandaríkjanna og Bretlands fremur en endurhæfingarstefnu Norðurlandanna, líkt og formaður Afstöðu hefur orðað það. Í þættinum kom fram að um helmingur fanga situr inni vegna fíkniefnabrota. En refsivistin skilar ekki alltaf tilsettum árangri, eins og það er orðað í fréttinni. Fyrrum fangar eiga erfitt með að fá vinnu vegna fordóma og margir hafa ekki í nein hús að venda að afplánun lokinni. Úr verður vítahringur sem erfitt er að rjúfa. Veikt fólk í viðkvæmri stöðu er þannig ítrekað lokað inni í ónýtu húsnæði þar sem það er útsett fyrir ofbeldi og hefur lítinn sem engan aðgang að þeirri aðstoð sem það þarf á að halda til að rjúfa vítahring örbirgðar og afbrota. Því skal þó haldið til haga að úrbætur í geðheilbrigðismálum fanga væru í besta falli skaðaminnkandi aðgerð því að fangelsisvist er skaðleg í sjálfri sér, ekki betrandi.

Forseti. Við leysum ekki heilbrigðisvanda og félagslegan vanda fólks með því að læsa það inni.