154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

svör ráðherra við fyrirspurnum.

[15:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Það er dálítið gömul plata sem ég ætla að spila í dag en ég ætla að minna á að ráðherrum ber að svara fyrirspurnum sem lagðar eru fram. Ég lagði fram fyrirspurn til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 19. september. Það hefur ekkert heyrst af henni. Ég sendi líka á sama tíma fyrirspurn til innviðaráðherra. Það kom 16. október tilkynning um að svarinu myndi eitthvað seinka. 24. október lagði ég einnig til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrirspurn sem ekki hefur verið svarað og 13. nóvember fyrirspurn til dómsmálaráðherra sem hefur ekki einu sinni beðið um að fá að skila seint. Sumar þessara fyrirspurna eru búnar að bíða í 95 daga sem er langtum lengur en þingskapalög gera ráð fyrir.

Mér er spurn, herra forseti. Þarf ekki að fara bara í einhverjar breytingar á þingskapalögum þannig að það komi dagsektir eða eitthvað á ráðherra eða þeim bannað að gera eitthvað ef þeir svara ekki fyrirspurnum? Þetta er orðið verra en brandari hvað þetta tekur langan tíma.