154. löggjafarþing — 61. fundur,  31. jan. 2024.

sértækur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

618. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd meiri hluta hv. velferðarnefndar mæli ég fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um breytingu á lögum um sértækan húsnæðisstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

Frumvarpið felur í sér framlengingu á gildistíma heimildar til greiðslu sértæks húsnæðisstuðnings samkvæmt lögum nr. 94/2023, um fjóra mánuði, til loka júní 2024. Jafnframt er lagt til að úrræðið verði rýmkað. Annars vegar verði þak á hlutfalli sértæks húsnæðisstuðnings hækkað úr 75% í 90%. Hins vegar verði gerð sú breyting á hámarki sértæks húsnæðisstuðnings miðað við fjölda heimilismanna að í stað þess að efsti flokkur verði fjórir heimilismenn eða fleiri verði hann sex heimilismenn eða fleiri og hámarksfjárhæð í efstu flokkunum hækkuð því til samræmis.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund góða gesti frá Grindavíkurbæ og Verkalýðsfélagi Grindavíkur. Auk þess bárust nefndinni minnisblöð, m.a. með upplýsingum um framkvæmd úrræðisins til þessa. Minnisblöðin liggja fyrir á vef þingsins.

Heilt á litið er það mat meiri hluta nefndarinnar að frumvarpið feli í sér mikilvægt skref til að koma til móts við þarfir Grindvíkinga vegna verulegs hættu- og óvissuástands sem ríkt hefur í bænum og jókst óvissan til muna eftir að eldgos hófst 14. janúar sl., sem þó hafði verið mikil fyrir. Engu að síður leggur meiri hlutinn til frekari breytingar sem ég mun fara yfir hér en að öðru leyti vísast til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögurnar í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar.

Lögð er til breyting á hámarksfjárhæðum sérstaks húsnæðisstuðnings í öllum flokkum og þær hækkaðar en með þeim hætti er komið til móts við nokkrar ábendingar sem nefndinni bárust um leiðir til að mæta betur þörfum ólíkra fjölskyldna Grindvíkinga í húsnæðismálum.

Þá leggur nefndin til að gildistími sérstaks húsnæðisstuðnings verði framlengdur enn frekar og lagt er til að úrræðið standi Grindvíkingum til boða út ágústmánuð í stað þess að það gildi út júnímánuð. Ljóst er að á næstu mánuðum verður áfram þörf fyrir bæði sértækan húsnæðisstuðning við íbúa Grindavíkurbæjar sem og önnur þau úrræði sem gripið hefur verið til vegna húsnæðisvanda þeirra. Jafnframt er mikilvægt að reyna að skapa stöðugleika í húsnæðismálum eins og mögulegt er meðan þetta ástand varir. Boðað hefur verið að útfærsla á varanlegri lausnum og langtímalausnum í húsnæðismálum muni liggja fyrir í febrúar. Til að tryggja tímabundið húsnæði á meðan unnið er að útfærslum á varanlegum lausnum og skapa ákveðið svigrúm til að skipta út skammtímaúrræðum fyrir langtímaúrræði er það mat nefndarinnar að nauðsynlegt sé að tímabundin húsnæðisstuðningur verði framlengdur út sumarið þótt væntingar séu um að langtímaúrræði mun í flestum tilfellum hafa tekið við áður en gildistíma lýkur.

Þá áréttar meiri hlutinn mikilvægi þess að lögin verða endurskoðuð fyrir lok júní 2024 og þá verði metið hvort þörf sé á frekari framlengingu á gildistíma.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir álit meiri hluta nefndarinnar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Magnús Árni Skjöld Magnússon, Ásmundur Friðriksson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Stefán Vagn Stefánsson og Óli Björn Kárason. Guðbrandur Einarsson áheyrnarfulltrúi er jafnframt samþykkur áliti þessu.