154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[16:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég undirstrika að það skiptir miklu máli að við leitum allra leiða til þess að styrkja og efla bændur. Ég ætla að horfa á þessa tillögu þannig þó að okkur greini á í grundvallaratriðum. Ég tel regnhlífina samkeppni vera til hjálpar, til stuðnings öllum þeim sem starfa í öllum atvinnugreinum. Ég held að það hafi líka sýnt sig í gegnum tíðina. Ég segi líka að það er mjög eðlilegt að við horfum á öfluga milliliði eða afurðastöðvar eins og í þessu tilviki, ekki síst ef markaðirnir eru að stækka. Ég held að það sé eitt af stóru hagsmunamálunum okkar sem unnum íslenskum landbúnaði að stækka markaðinn til að búa til burðugri bita og rekstrareiningar fyrir okkur. Með þessu er ég m.a. að hugsa um það hver ávinningurinn væri fyrir okkur til að mynda að vera í Evrópusambandinu.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, bændur í Evrópusambandinu er mjög mismunandi haldnir. Við vitum það líka að finnskir bændur eru mun sáttari við sinn aðbúnað en áður eftir að þeir gengu inn í Evrópusambandið. Er eitthvað fullkomið? Nei, síður en svo. Helsti ágreiningur til að mynda franskra bænda núna, og líka þýskra, er að stjórnvöld eru hætt að niðurgreiða olíu til bænda eins og m.a. er gert óbeint hér heima með litaðri eða blandaðri olíu og fleira. Það er okkar leið til að koma til móts við það svið. Ég held að það skipti miklu máli til þess að við höldum áfram að byggja undir íslenskan landbúnað að skoða hvaða hagsmunir eru fólgnir í því að fá aðgang að stærri markaði. Ég held að það væri mjög mikið af sóknarfærum fólgið þar af því að hvort sem við erum hérna heima eða í útlöndum finnum við það, nýkomin heim frá Þýskalandi, að þar eru neytendur líka að leita eftir heilsusamlegu matvælum beint frá býli (Forseti hringir.) og þar er staða okkar Íslendinga alveg ótrúlega sterk þannig að við eigum að halda áfram með sprotann í hendi. Þannig eru íslenskar landbúnaðarvörur.