154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir að mæla fyrir þessu ágæta máli sem þingflokkur Miðflokksins í heild sinni mun styðja komist það til atkvæðagreiðslu. Fyrir þessu máli hefur verið mælt öll þing þessarar ríkisstjórnar sem við sitjum nú uppi með nema það fyrsta. Á hverju ári síðan á 149. löggjafarþingi hefur verið mælt fyrir málinu og þetta er í þriðja skipti, sýnist mér, sem það kemst hér til umræðu í þingsal. Hv. þingmaður lýsti því hér áðan að það væri verið að fjalla um tengt mál í atvinnuveganefnd sem snýr að framleiðendafélögum og lagt fram af matvælaráðherra. Í greinargerð þess máls segir beinlínis að þessi leið sé eitthvað sem mönnum hugnist ekki á grundvelli umsagna sem komu fram í samráðsgátt. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hverjar hann telji lífslíkur þessa máls í þessari umferð, líkur á framgangi. Eru einhverjar líkur til þess að mati hv. þingmanns að þetta mál vinnist samhliða máli matvælaráðherra í nefndinni? Nú er hv. þingmaður formaður nefndarinnar sem eykur líkurnar á að þau í raun deyi bæði, fyrir okkur sem þekkjum þingstörfin. Þetta mál var efnislega 7. mál á þingmálaskrá matvælaráðherra sem lögð var fram í september 2022 á síðasta löggjafarþingi og var ekki lagt fram á endanum í ljósi þessara umsagna sem lýst er í málinu sem nú er til meðferðar í atvinnuveganefnd. En mig langar að spyrja hv. þingmann, framsögumann málsins, þessa góða máls sem ég styð efnislega, held ég að ég geti sagt, frá A til Ö, og myndi greiða atkvæði með: Hverjar telur hann líkurnar á því að hæstv. matvælaráðherra muni styðja við framgang máls sem þessa samhliða framleiðendafélagamálinu sem er til meðhöndlunar í atvinnuveganefnd nú um stundir?