154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem ég átta mig ekki alveg á er samspil þessara tveggja mála. Í máli ráðherra um framleiðendafélögin er beinlínis sagt að þessi nálgun sem hér er lögð til sé ekki fær, ekki skynsamleg, hver sem nálgunin var í útskýringunni, ég er ekki með plaggið fyrir mig. Hv. þingmaður sagði sömuleiðis í framsöguræðu sinni að þær tillögur sem þar eru gerðar gangi of skammt, gagnist markaðinum ekki þannig að eitthvert vit sé í. Það sem ég er að reyna að átta mig á er þetta samspil stjórnarflokkanna, ráðherra og meiri hluta nefnda og þar fram eftir götunum. Ég er hræddur um að við séum hér dálítið föst í einhverri lúppu, einhverri hringavitleysu þar sem mál eins og þetta mál, jafn gott og það er, verður einhvern veginn fórnarlamb þess að ráðherra málaflokksins er á allt annarri vegferð. Við þekkjum það auðvitað með hvaða hætti málum hefur reitt af á undanförnum misserum þegar skiptidíll ráðherranna er frágenginn undir lok þings hverju sinni. Ég vil bara brýna formann hv. atvinnuveganefndar að reyna að tryggja það, með því að forgangsraða málinu í nefnd sinni, að málið komist hér til atkvæðagreiðslu því að mér segir svo hugur að það sé meiri hluti fyrir þessu máli hér í þingsal þegar hann er fullskipaður. Ég er næstum því öruggur á því. Það er mun líklegra að það sé meiri hluti fyrir þessu máli heldur en framleiðendamáli matvælaráðherra sem ætti þó ef allt væri eðlilegt að hafa ríkisstjórnina á bak við sig, en það er nú eins og við þekkjum. Ég bara hvet hv. þingmann, það er engin sérstök spurning í þessu seinna andsvari mínu, að forgangsraða málinu með þeim hætti í nefndinni að það komist tryggilega hér til atkvæðagreiðslu í þingsal.