154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek svo sem undir það að ég heyrði enga spurningu en góðar vangaveltur hvað það varðar frá hv. þingmanni. Það er nú svo, frú forseti, að við vinnslu á málum, hvort sem það eru þingmannamál eða mál frá ráðherra ríkisstjórnarinnar, þá leitast nú þeir sem að málunum koma að finna þeim ákveðinn farveg. Það er engin nýlunda hér á þingi að mál taki breytingum í meðförum nefnda. Nú ætla ég ekki að segja til um lyktir þessa máls eða þess máls sem hv. þingmaður vísaði í. En fyrst hv. þingmaður fór þá leið að tala um hug hæstv. matvælaráðherra þá vil ég bara segja að ég hef ekki fundið annað í samtölum mínum og viðskiptum við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, sem nú er í leyfi, en að hugur hennar standi þéttur með innlendri matvælaframleiðslu. Þannig vil ég skilja við þá umræðu sem við höfum átt í þessu samhengi og dreg þau heilindi ekki neitt í efa. Hvað varðar samstarf stjórnarflokkanna og annað þá hefur okkur vissulega stundum greint á um ýmis mál. En ég tek líka undir það með hv. þingmanni að ég held að við séum í dauðafæri að nálgast málið eins og það sem um ræðir í þessari umræðu á þann veg að við sjáum nú til lands í því að skapa skynsamleg starfsskilyrði fyrir innlenda matvælaframleiðslu sem þetta varðar, þ.e. afurðastöðvar í kjötiðnaði.