154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að taka þátt í þessari umræðu, ekki síst kannski vegna þess að við erum búin að vera að ræða þennan anga inni í atvinnuveganefnd. Það skiptir auðvitað máli hvernig að því er staðið, og þegar hér er verið að spyrja af hverju ráðherra gangi ekki svona langt þá er því ekki að neita að í samráðsgátt á síðasta þingi fór mál sem gekk talsvert lengra en það sem við erum nú með til umfjöllunar í nefndinni og Samkeppniseftirlitið var ekki mjög hresst, það er óhætt að segja það. En auðvitað veltir maður því fyrir sér hver tilgangurinn eigi að vera, tilgangur laganna, samkeppnislaganna annars vegar og svo þess að vera að verja að fæðu- og matvælaöryggi hér á landi. Ég lít svo á að þetta sé partur af því að við getum hagrætt og gert hlutina betur en við erum að gera í dag.

Því er ekkert að leyna, eins og hv. frummælandi kom inn á, að við erum auðvitað afskaplega smá. Hér voru Kjarnafæði og Norðlenska einmitt nefnd og 700 vörunúmer eða hvað það er sem þar eru undir. Það er auðvitað bara pínulítið í hinu stóra samhengi, ekki síst hinu evrópska. Ég eiginlega alveg sannfærð um að þessi samkeppni sé fyrst og fremst vegna þess hvernig tollamálunum okkar er háttað. Ég tel hana ekki vera af hinu góða. Hún er ekki á samkeppnishæfum grunni. Það er kannski það sem fyrst og fremst er hér undir, að við erum hér með bændur sem á íslenskan mælikvarða teljast sumir stórir, aðrir ekki, en þeir eru samt lítil baun í samanburði við það sem við erum að takast á við erlendis. Innflutningur og annað slíkt er að fara í gegnum stórar fabrikkur að utan og eins og hvíslað var í eyrað á mér áðan myndi Danish Crown slátra öllum nautgripum á Íslandi á fimm dögum. Það setur þetta í ákveðið samhengi.

Svo langar mig líka að taka fram að það er alveg sannarlega tilefni til þess að takast á við það að skoða stuðningskerfi bænda og bara almennt stuðning við landbúnað. Það breytir því ekki að einn af öngum þess máls sem við erum hér að fjalla um eru afurðastöðvarnar, sem eru smáar. Til að þær beri sig, þá bæði í hag bænda og neytenda, þarf að gera breytingar og hér er lögð fram ein leið til þess. Hvort hún er sú allra besta veit ég ekki, en hún er alla vega hér til umræðu.

Mig langar líka í þessu samhengi — af því að bæði hef ég ítrekað hér í þessari pontu og félagar mínir sem hafa áhuga á þessum málum nefnt, og hér síðasti ræðumaður, heilnæmi íslenskra landbúnaðarafurða. Það er mjög mikilvægt. Það er of lítið um það talað, finnst mér, af því að við getum ekki verið viss um það að svo sé í þessu innflutta kjötmeti sem hér er á boðstólum. Það er ekki langt síðan við fluttum inn kjúklingabringur sem reyndust vera frá Taílandi en voru það alls ekki af pakkningum að dæma.

Ég var með fyrirspurn til ráðherra í fyrra varðandi íslenska fánann og merkingar og annað slíkt og það hefur ekki verið nógu stíf löggjöf eða regluverk í kringum það. Menn hafa verið að leika sér með það, því miður, því að smasshamborgaraumræðan í fyrra t.d., þar sem innihaldið er bara alls ekki að öllu leyti íslenskt — og það að vara þurfi að uppfylla að einhverju smáu leyti, að mínu mati a.m.k., íslenskt innihald til þess að teljast vera íslensk vara, það á auðvitað ekki að vera þannig. Þú átt bara að vita nákvæmlega hvað þú ert að kaupa án þess að þú þurfir að rýna alltaf í smáa letrið. Þess vegna skiptir máli í rauninni að fólk veiti þessum merkingum athygli, Íslenskt staðfest og fleiru sem Bændasamtökin hafa nú verið með.

En ég held að ef svona breytingar ná fram að ganga — við erum sannarlega að fjalla um mál ráðherra sem gengur ekki svona langt inni í atvinnuveganefnd en erum svona að velta fyrir okkur ákveðnum hugmyndum, því það tekur kannski ekki nógu vel utan um allt það sem þyrfti að gera að okkar mati — þá myndi það skila sér til neytenda. Hagræðingin myndi hér skila sér til neytenda. Ég held að það sé kannski það sem við þurfum líka dálítið að horfa til. Það er ekki bara verið að hugsa um afkomu bænda, þó að hún sé sannarlega í forgrunni, eða afkomu afurðastöðvanna eða eitthvað slíkt en allt hjálpast þetta samt sem áður að til að búa betur um greinina.

Það er dálítið áhugavert að þessi 71. gr. sem heimilar mjólkuriðnaðinum þá undanþágu sem þar er undir — af hverju samkeppnisyfirvöld eru svona stíf gagnvart þessu, því að eins og hér hefur komið fram þá skilaði þessi breyting sem varð á samruna Norðlenska og Kjarnafæðis strax talsverðum ávinningi. Ég ímynda mér að þessi breyting sem var gerð fyrir afurðastöðvarnar í mjólkuriðnaði gæti skilað sér með sambærilegum hætti og var í mjólkuriðnaðinum til handa kjötmarkaðnum.

Hér hefur Evrópusambandið verið nefnt og hv. þingmaður og formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nefndi hér að það væri aðallega um niðurgreiðslu á olíu að ræða sem bændur væru að mótmæla. Það er mjög mikil einföldun. Það eru bara bændur víðs vegar í Evrópu sem eru ekki sáttir og það er ekki bara vegna þess að það er verið að taka á niðurgreiðslu er varðar olíu. Það er margt annað sem þar er undir þannig að það leysir ekki allt þó að eflaust hafi hagur einhverra vænkast á einhverjum tímapunkti í þeim löndum þegar bændur fóru inn í það kerfi.

En eins og bent er á í þessu máli sem hér er þá eru nefnilega víðtækar undanþágur í regluverkinu þar, í landbúnaðarstefnunni. Það er kannski eitt af því sem styður þetta mál hvað varðar það að til þess sé horft, ekki síst upp á í rauninni bara samkeppnina erlendis frá því að hún er í sjálfu sér ekki innan lands. Við erum svo fá, við erum svo lítil en við eigum alveg að geta verið okkur næg um framleiðslu á þessum matvælum. En til þess þarf stuðningskerfið og aðbúnaðurinn og allt þetta sem við höfum oft rætt hér að vera í lagi. Um leið og ég segi það aftur að það er sannarlega kominn tími til að við endurskoðum búvörulögin og að við endurskoðum samninginn sem er stuðningskerfi íslenskra bænda og færum kannski eitthvað meira í átt til nútímans — það snýst ekki bara um að bæta við fjármunum, það snýst líka um breytingar á uppbyggingu stuðningsnetsins — þá er þetta kannski hinn vængurinn sem gæti hjálpað til til þess að, hvað eigum við að segja, fleiri langi að stunda landbúnað. Við fengum formann samtaka ungra bænda á fund atvinnuveganefndar í gær sem var mjög hressandi af því að það kemur fram hjá þeim — og við boðuðum til mikils fundar með okkur þingmönnum hérna síðasta vor, minnir mig að hafi verið, þar sem fram kemur alveg að það er mikill áhugi og það er eitt og annað sem þarf að kannski laga til að yngri bændur geti tekið við af foreldrum sínum eða öðrum eða keypt sig inn í rekstur eða eitthvað slíkt. Þá er það samt þannig að þetta ytra verk sem hér er sýnir að oft þarf kannski ekkert svakalega stóra hluti til að velta þungu hlassi. Að mínu mati er þetta alla vega ekki þess eðlis. Ég vona svo sannarlega við náum einhverju samtali í nefndinni líka um það mál sem við erum með til umfjöllunar um það hvernig við getum fært það nær því að það gagnist bæði neytendum og landbúnaðinum sjálfum.