154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[18:08]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eru sóknarfæri? Þau leynast örugglega víða. Hv. þingmaður kom inn á það áðan varðandi lambakjötið. Þetta erum við búin að tala um örugglega í 20 ár og það skilur það enginn. Hvernig má það vera að það sé ódýrara að fá eitthvert lambalæri — það er a.m.k. þannig inn á milli, ég veit ekki alveg hvernig þetta er núna úti í búð — en að kaupa pítsu? Þetta er náttúrlega bara einhver þvæla. Þannig hefur það verið, eins og ég kom inn á, að við erum kannski ekki alltaf að borga fyrir gæðin. Þetta er bara eitthvað sem við eigum mikið við varðandi matvæli mjög víða.

Þetta er ekki bara íslenskt fyrirbæri, þetta er út um allt. Þegar við erum að tala um atvinnugreinina landbúnað í kreppu á Íslandi þá er, eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan, líka kreppa í Evrópu í landbúnaði. Þess vegna finnst mér þetta svolítið leiðinleg einföldun sem kemur fram og hefur komið fram hér í þinginu undanfarin misseri og ár. Það er eins og allt myndi bara vera frábært við að fara í Evrópusambandið með íslenskan landbúnað. Ég er bara ekki þar vegna þess að maður er búinn að hlusta á þingmenn í þessum löndum og svo þarf ekkert annað en að horfa bara á sjónvarp öðru hvoru, erlendar stöðvar og annað. Eins það sem er núna að gerast í Þýskalandi og Frakklandi, alla vega í september, það horfði ég á með eigin augum en þar var búið að setja um alla akra í Slésvík-Holtsetalandi — og í lestinni frá Berlín til Hamborgar, það voru bara alls staðar einhver mótmæli — það voru skilti út um allt á ökrunum þar sem þýskir bændur voru að kvarta yfir sínum kjörum.

Af hverju nær þessi umræða ekki hingað heim? Hentar það ekki málstaðnum eða hentar það ekki íslenskri umræðu í fjölmiðlum? Ég held að mörg okkar sem tökum þátt í alþjóðastarfi verðum ansi hressilega vör við umræðu sem snýr að þessum þáttum, sem snýr að matvælum og öryggi. Þannig að víða eru vandamálin.