154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

41. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson og Gísli Rafn Ólafsson.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo: Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2024. Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að þegar þessi þingsályktunartillaga var gerð þá var ekki gert ráð fyrir því að endurskoðun á búvörusamningnum væri lokið. Henni er lokið núna en þingsályktunartillagan hefur sitt gildi þrátt fyrir það og við þurfum að horfa til þess að halda áfram að vinna að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur og kem ég betur að því á eftir í ræðu minni. — En áfram varðandi endurskoðunina á búvörusamningum þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landi hverju sinni.

Virðulegur forseti. Þessi tillaga er flutt í annað sinn og var áður lögð fram á 153. löggjafarþingi. Hún er flutt hér öðru sinni því sem næst óbreytt, með minni háttar breytingum. En aldrei er góð vísa of oft kveðin og var það nú hér áðan í góðri umræðu um annað mál sem var verið að flytja í sjötta sinn á jafn mörgum árum.

Það hefur verið og er algjörlega nauðsynlegt og verður alltaf nauðsynlegra með hverju árinu sem líður, virðulegur forseti, að við horfum inn á við og veltum fyrir okkur þeirri stöðu sem við erum í sem ríki norður í Atlantshafi. Við höfum hingað til og verðum um ókomna tíð alltaf háð einhverjum innflutningi á ýmiss konar aðföngum, hvort sem er matvælum eða öðrum aðföngum sem ekki eru framleidd hér. En það er alveg klárt mál að við getum gert mun betur í því að lyfta matvælaframleiðslu okkar og fjallar þessi þingsályktunartillaga að hluta til um það, þ.e. að eiga hér næg matvæli. Sömuleiðis er mikilvægt að eiga þau aðföng sem ekki eru framleidd hér. Má í því samhengi nefna hráolíu, sem þarf því miður enn sem komið er að nýta til að knýja vélar, og tæki sem við notum við framleiðsluna. Við erum ekki enn komin þangað að við getum nýtt okkur það að vera með endurnýjanlega græna orku á tækjum okkar en vonandi verður það nú á næstu árum og misserum orðinn góður valkostur að nýta það.

Innflutningurinn hefur verið hér til umræðu í tengslum við þau stríð, þau áföll sem orðið hafa og eru því miður enn í gangi ekkert svo langt frá okkur. Það er enn barist af hörku austur í Úkraínu. Síðan er því miður skelfilegt stríð sem á sér stað í Palestínu, milli Ísraels og Palestínu. Sömuleiðis erum við með breyttu veðurfari að lenda í ýmsum áföllum hvað þetta varðar, varðandi þær hamfarir sem geta orðið, bæði flóð, þurrka og það sem þekkist nú stundum í Ameríku sem snýr að kornframleiðslunni, þ.e. að það brestur á með hagléljum og skemmir þá uppskeru sem er því sem næst orðin tæk til að skera upp.

Það hafa verið unnar skýrslur. Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér skýrslu árið 2021 þar sem fjallað var um fæðuöryggi og hvað þarf að uppfylla um viðmið þess efnis. Þar er tekið á mörgum þáttum og ætla ég aðeins að dvelja við það sem snýr að matvælaframleiðslunni í það skiptið. Við erum að vinna hér eftir ákveðnum stefnum. Við erum með matvælastefnu sem er frá 2020 og er þar farið yfir mikinn hluta varðandi það sem snýr að fæðuöryggi og við þurfum að horfa til. Þar er tekið til þess hvað við erum að framleiða í dag. Við erum náttúrlega þekkt sem þjóð sem veiðir mikið af fiskmeti til útflutnings. Við ættum svo sem alveg nóg af fiski ef við myndum bara neyta fisks en um það er ekki verið að ræða í þessu tilliti og er heldur ekki yfir höfuð í boði. Þá erum við að horfa til innlendra matvæla í því samhengi.

Það hefur sömuleiðis verið unnin skýrsla af norrænu ráðherranefndinni sem kom út 2022, um mat á fæðuöryggi norrænna eyjasamfélaga. Eigin matvælaframleiðsla Íslands er þá metin 53% af neyslu landsmanna, sem er þá miðað við það orkugildi sem er í matvælunum, það er sú mælieining sem er notuð í þessu samhengi. Við erum að framleiða nær allt það kjöt sem við þurfum, það vantar upp á í nautakjötinu. Við erum að framleiða nokkuð vel af svínakjöti sömuleiðis, það vantar eitthvað aðeins upp á í kjúklingakjötinu en hingað til höfum við verið sjálfum okkur næg um lambakjöt þó svo að sú staða sem er uppi í þeirri grein núna sé kannski ekki þannig að við getum sagt að við eigum yfirdrifið nóg af því. Það er, held ég, bara rétt á pari.

Þegar kemur að mjólkinni þá erum við því sem næst sjálfbær. En þegar kemur að grænmeti og ávöxtum þá eru það einungis 10% af því sem við erum að neyta. Það eru 43% ef við myndum bara horfa til grænmetis en ávextir eru lítt þekktir í framleiðslu hér. Síðan komum við að verulegri áskorun sem snýr að framleiðslu á korni og þar erum við einungis að framleiða um 1% þannig að þar er gríðarlegt sóknarfæri fyrir okkur því að við getum farið mun meira í það að framleiða hér korn. Við getum þá horft til þess að við séum þá að framleiða korn sem við myndum nýta fyrst og fremst til að gefa búfénaði. Það er lengri tíma mál að tala um það hér að framleiða allt það korn sem mannfólkið lætur ofan í sig hér á landi en það eru vissulega tækifæri hvað það varðar og hefur verið gripið til ýmissa ráða. Hefur hæstv. matvælaráðherra farið í það mál af krafti og horfir nú til betri vegar hvað það varðar.

Ef við stöldrum aðeins við hvað kornræktina varðar þá hefur hið opinbera verið að setja fjármuni til þeirrar ræktunar. En þar erum við bara rétt að byrja og þurfum að gera mun betur. Þau skref sem hafa verið stigin núna eru mikilvæg en við þurfum að taka mun fleiri og stærri skref til að festa kornræktina enn frekar í sessi sem búgrein hér á landi. Það er alveg klárt mál að kornrækt myndi ég telja að væri sú búgrein sem hefur mesta vaxtarmöguleika, að efla kornrækt, fæðuöryggið er mikilvægt.

En við þurfum alltaf að hafa í huga, virðulegur forseti, þegar við erum að tala um framleiðslu á matvælum að við erum háð ákveðnum innflutningi á aðföngum. Því miður er það þannig, og hefur lítið lagast þrátt fyrir að við séum búin að ræða þetta í einhver tvö ár, að við eigum afskaplega takmarkaðar birgðir t.d. af hráolíu. Við eigum því sem næst eiginlega engar birgðir af kornvöru, kannski til þriggja, fjögurra vikna í senn og stundum er það nú skemmri tími hvað það varðar, þannig að þarna þurfum við að gera gangskör enn frekar í þeirri vegferð að geta tryggt hér aðföng sem við þurfum að nota við framleiðsluna.

Við getum horft til þess sömuleiðis sem snýr að fiskeldinu, að við þurfum töluvert af innfluttum aðföngum til að fæða fiskinn, þ.e. kornvöru. Fiskeldið er á suman hátt mjög háð innfluttu fóðri til þess að framleiða þá afurð sem um er rætt í þessu tilliti. Það er þannig með birgðastöðuna að hún er verulega takmörkuð og úr því þarf að bæta með hinum ýmsu ráðum. Við þurfum að líta á það þannig að þetta er ekki bara málefni ríkisins, þetta er sömuleiðis sameiginlegt verkefni þeirra sem halda utan um innflutning og sölu á þessum afurðum. En vissulega þarf ríkið að koma að. Við þekkjum það ágætlega, t.d. í Evrópusambandinu þar sem Evrópusambandið tryggir ákveðnar lágmarksbirgðir af t.d. korni og fleiri vörum þannig að það hefur þá borgað fyrir að geyma birgðir af því o.s.frv.

En það eru þessi þrjú, fjögur atriði sem þarf að hafa í huga, það sem við þurfum að tryggja, og gleymdi ég að ræða hér um lyf, t.d. dýralyf. Þau þurfa náttúrlega að vera til líka og hefur nú verið ansi þröngur stakkur sniðinn hvað það varðar á ýmsan hátt. En það er fyrst og fremst það að við þurfum að tryggja innlenda matvælaframleiðslu, við þurfum þá að tryggja nauðsynleg aðföng til innlendrar matvælaframleiðslu.

Síðan er það eldsneytið. Áburður sömuleiðis, hann þarf að vera til í einhverju magni í birgðum. Síðan eru náttúrlega þættir sem snúa að varahlutum og öðru í vélarnar sem við erum með því að yfirleitt er þetta ekki til hér. Þannig að það er margt sem við þurfum að taka á. Það þarf ýmislegt annað en bara vatn og hreint loft til þess eins að framleiða mat. Það eru margir þættir sem koma þar að til þess að við getum framleitt þessar vörur sem við erum að framleiða og getum bætt en þá þurfum við að hafa öll aðföng til staðar.