154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

ástandið í fangelsismálum og fjárheimildir til þeirra.

[10:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Herra forseti. Fangelsismál voru sett rækilega á dagskrá þingsins þegar fyrrverandi dómsmálaráðherra hótaði að loka opna fangelsinu Sogni ef Alþingi myndi ekki leggja fram til meira fjármagn, 400 milljónir vantaði í reksturinn. Þar virtist fyrrverandi dómsmálaráðherra hafa steingleymt því að það var hann sjálfur sem lagði til fjársvelti fangelsanna til að byrja með. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. dómsmálaráðherra hafi heimsótt Litla-Hraun nýlega og séð það sama og ég; heilan helling af skemmdu og ónýtu húsnæði. Það hefur nefnilega ekki bara vantað fjármagn í reksturinn heldur einnig í viðhald húsnæðis, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Húsakostur fangelsisins er aftur á móti úr sér genginn, en byggingarsaga fangelsisins hefur aldrei einkennst af heildar- eða langtímasýn um starfsemina. Þá hefur afar mikil viðhaldsþörf safnast upp undanfarna áratugi.“

Til viðbótar, með leyfi forseta:

„Stærsta bygging Fangelsisins Litla-Hrauns (Hús 4) þjónar ekki tilgangi sínum og sterkar vísbendingar eru um að það sé ónýtt.“

Samt hefur einhvern veginn verið kvittað upp á að fangelsið sé nothæft af öðrum eftirlitsaðilum á sama tíma og öryggismálum er ábótavant, menntun fangavarða er ekki fullnægjandi, stöðu kvenkyns fanga er ábótavant, biðlistar sem enginn vill vera á eru langir og endurhæfing er brandari.

Nú hefur hæstv. dómsmálaráðherra tilkynnt að nýtt fangelsi verði byggt á næstu árum þar sem greining Framkvæmdasýslunnar leiddi í ljós að húsnæði Litla-Hrauns sé í svo slæmu ástandi að það svari ekki kostnaði að fara í lagfæringar. Samt eigi fangelsið að vera í fullri starfsemi á meðan. Því vil ég spyrja ráðherra einfaldrar spurningar: Telur ráðherra að hægt sé að uppfylla skilyrði laga um fullnustu refsinga með núverandi fjárheimildum og aðstöðu?