154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

ástandið í fangelsismálum og fjárheimildir til þeirra.

[10:39]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að eitt af aðaláherslumálum mínum sem ráðherra eru fangelsismál. Ég er sammála fyrirspyrjanda að þessi málaflokkur hefur átt undir högg að sækja í langan tíma á Íslandi, í allt of langan tíma, og það er löngu nauðsynlegt að bregðast við. Það er löngu orðið tímabært að byggja nýtt fangelsi og það erum við að gera. Ég hef einnig boðað heildarendurskoðun á fullnustukerfinu í átt til betrunar og þetta er vinna sem er að fara af stað og ég tel mjög brýna og mikilvæga. Ég vil einnig að það komi skýrt fram að til að mæta þeirri stöðu sem hv. þingmaður nefnir hér þá voru tryggðar 250 milljónir í varanlega viðbót til reksturs fangelsa sem og að aðhaldskrafan var tekin af fangelsum. (Forseti hringir.) Sömuleiðis var samþykkt 80 millj. kr. viðbótarframlag til þess að bæta og auka menntun fangavarða. Allt er þetta gert til þess að bæta aðstöðu í þessum málaflokki.