154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

undirbúningur og fjármögnun nýs fangelsis.

[10:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og vil nú byrja á því að segja að það að hér séu viðunandi fangelsi í fullvalda samfélagi sem er vel stætt er grundvallarhlutverk ríkisins og ég vona að við getum sameinast um að þeir hlutir eigi að vera í lagi. Ég er sammála ráðherranum í því að það var rétt að breyta þessum rúmu 2 milljörðum sem áttu að fara í viðhald í fjárfestingu í nýju fangelsi.

Ég er sammála hv. þingmanni í því að það er gríðarlega mikil vinna sem þarf að fara í og er viðvarandi. Sú staða er ekki ný af nálinni að mönnunarmál í fangelsum, starfsaðstaða, það að halda því fólki sem þar þarf að veita mjög mikilvæga þjónustu er erfitt verkefni og viðvarandi. Þar skiptir auðvitað máli að vinnuaðstæður séu eins og best verður á kosið í erfiðu umhverfi. Sömuleiðis er ég þeirrar skoðunar að við getum gert betur þegar kemur að betrun og umræðu um fanga á Íslandi.

Við erum með fjármálaáætlun í vinnslu og við erum í samstarfi við dómsmálaráðuneytið. Þar er stýrihópur að störfum varðandi byggingu nýs öryggisfangelsis á Litla-Hrauni. Það er bæði samtal og vinna í gangi og við vitum af þessu verkefni. Þar þarf að passa að við gerum það eins fjárhagslega skynsamlega og hægt er en auðvitað þannig að við lítum til lengri tíma og hugum að öðrum þáttum sem eru vandræði í fangelsismálum, þ.e. mönnun, að það sé hugað að því sömuleiðis, vegna þess að það skiptir okkur sem samfélag miklu máli að gera þetta eins og best verður á kosið og ef ríkið á að sinna einhverju þá eru það þessir hlutir. (Forseti hringir.) Auðvitað langar mig mjög mikið að komast í almenna umræðu um það hverju við gætum þá hætt til þess einmitt að forgangsraða betur í grundvallarverkefni ríkisins.