154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

undirbúningur og fjármögnun nýs fangelsis.

[11:00]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að minna á að við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir jól þá lagði Samfylkingin til að fjárlaganefnd gerði þverpólitískar tillögur um nauðsynlega fjármögnun til úrbóta í fangelsismálum sem stjórnarflokkarnir studdu ekki, illu heilli.

Um verkefni sem hægt er að leggja niður til að sinna grundvallarverkefnum — ég verð að hryggja hæstv. ráðherra með því að ég hef ekki miklu að deila í þessari umræðu vegna þess að hreinlega er af nógu að taka og mig grunar að það skorti verulega á skynbragð fyrir þeim verkefnum sem geta ekki beðið. Við erum að tala um fíknivanda og geðheilbrigðismál, samtal sem hæstv. fjármálaráðherra verður að eiga við heilbrigðisráðherra. Tölum bara um grundvallarhluti eins og að fangar geti hreinlega komist til tannlæknis, líkt og bent var á í skýrslu Ríkisendurskoðunar að væri hreinlega brotalöm. Málefni kvenfanga, fjölskyldur fanga — það er algerlega morgunljóst að grundvallarþörf hvers ríkis er að tryggja það að hægt sé að sinna okkar minnstu bræðrum og systrum með þeim hætti (Forseti hringir.) að við berum einhvers konar lágmarksvirðingu fyrir þessu fólki, eigi það að snúa út í samfélagið og verða endurbættur þjóðfélagsþegn.