154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024 sem er að finna á þskj. 932. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum nokkurra málefnasviða og málaflokka vegna eldsumbrota og jarðhræringa við Grindavík. Atburðarásin síðustu vikur og mánuði með hraunrennsli innan bæjarmarka, sprungumyndunum og skemmdum á mikilvægum innviðum er þess eðlis að auka þarf stuðning við íbúa Grindavíkur sem var gert að yfirgefa heimili sín í nóvember 2023.

Í fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir rúmum 3 milljörðum kr. vegna ástandsins í Grindavík. Þyngst vega launagreiðslur og húsnæðisstuðningur við íbúa bæjarfélagsins en launagreiðslurnar voru fjármagnaðar til skamms tíma. Auk þess var Veðurstofa Íslands sérstaklega styrkt til að stofnunin gæti betur tryggt rekstur sinn og samtúlkun gagna í jarðskjálfta- og eldgosavá. Loks var veitt fjárheimild vegna vaxtaniðurgreiðslna við kaup á húsnæði í gegnum leigufélagið Bríeti vegna kaupa á íbúðum fyrir Grindvíkinga. Í ljósi nýjustu atburða er gert ráð fyrir að framlengja og auka við úrræði vegna eldsumbrota við Grindavík og tekur fyrsta fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2024 eingöngu til þessara atburða.

Lög um opinber fjármál marka skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Þannig er tilgreint í lögunum að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með öðrum þeim leiðum sem tilgreind eru í lögunum. Ef fyrrgreindar leiðir duga ekki til er enn fremur hægt að mæta tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, sem ekki er hægt að mæta með öðrum hætti, með almennum varasjóði. Í þessu frumvarpi er um að ræða tillögur um ný verkefni og auknar heimildir sem varða útgjaldamál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga eða teljast nú orðin brýn eða óhjákvæmileg. Í frumvarpinu er farið fram á auknar fjárheimildir til fjögurra málaflokka á árinu 2024 sem nema um 7,4 milljörðum kr. en það svarar til tæplega 0,5% hækkunar á heildarfjárheimildum í gildandi fjárlögum.

Á móti auknum fjárheimildum er lagt til að heimildir um almennan varasjóð verði lækkaðar um samsvarandi fjárhæð. Með þessu móti er í raun verið að nýta fyrirliggjandi heimildir í almenna varasjóðnum þótt það fari í gegnum fjáraukalög.

Ég vil vekja athygli á því í tengslum við hlutverk og umfang fjáraukalaga að í 24. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um almennan varasjóð A-hluta ríkissjóðs. Skilyrði fyrir ráðstöfun úr sjóðnum eru samskonar og þau sem gilda um frumvarp til fjáraukalaga, þ.e. að honum er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Það er hins vegar mat ríkisstjórnarinnar að best fari á því að þau verkefni sem eru inntak þessa frumvarps verði að svo stöddu ekki fjármögnuð beint með framlögum úr almenna varasjóðnum heldur óskað eftir heimildum með sérstökum fjáraukalögum. Að mínu mati fer einfaldlega betur á því að gera það með þessum hætti til að tryggja betur aðkomu þingsins að málum af þessari stærðargráðu.

En þá að meginefni frumvarpsins. Í frumvarpinu eru lagðar til auknar fjárheimildir til viðeigandi málefnasviða og málaflokka ráðuneyta vegna fimm liða, samtals um 7,4 milljarðar kr. Í fyrsta lagi er um að ræða framlengingu um fjóra mánuði á tímabundnum stuðningi til launagreiðslna, eða til loka júnímánaðar. Áætluð útgjöld vegna þessa nema 4,8 milljörðum kr. eða um 1,2 milljörðum kr. á mánaðargrundvelli. Í fjárlögum 2024 er gert ráð fyrir 2,4 milljörðum kr. vegna stuðnings til loka febrúar.

Í öðru lagi er aflað heimilda vegna nýs úrræðis um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Er það í samræmi við frumvarp þess efnis sem er í smíðum, en gert er ráð fyrir að það taki til tímabilsins nóvember 2023 til og með apríl 2024 og er kostnaður þess áætlaður um 1,5 milljarðar kr. Gert er ráð fyrir að stuðningurinn verði í formi beinna styrkja til rekstraraðila í Grindavík og er markmiðið að styðja rekstur þar sem starfsemin fer fram í Grindavík og hefur skerst verulega með beinum eða óbeinum hætti vegna jarðhræringanna, t.d. þá rekstraraðila sem hafa tekjur af því að selja vörur og þjónustu á staðnum. Gerðar verða ýmsar kröfur til þeirra rekstraraðila sem hljóta stuðning svo sem ótakmörkuð skattskyldu hér á landi, einnig að rekstraraðili sé hvorki í vanskilum með opinber gjöld né að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er gert ráð fyrir að rekstrarstuðningurinn sé að hámarki 6 millj. kr. fyrir hvern almanaksmánuð hjá rekstraraðila. Endanleg útfærsla rekstrarstuðningsins er enn í mótun og getur kostnaðarmatið því tekið breytingum en ég geri ráð fyrir að það komi hingað til þingsins mjög fljótlega, vonandi í í næstu viku.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að sérstakur húsnæðisstuðningur vegna náttúruhamfara í Grindavík verði framlengdur um fjóra mánuði eða til loka júní auk þess sem forsendum um hámarksgreiðslur verður breytt, en áætlaður kostnaðarauki er um 900 millj. kr. Um er að ræða viðbótarhúsnæðisstuðning til þess að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar. Fjárheimild í fjárlögum ársins 2024 nemur 450 millj. kr. miðað við gildistíma út febrúar, eða um 225 millj. kr. á mánuði. Í forsendum frumvarpsins er gert ráð fyrir að hærra hlutfall íbúa í Grindavík muni nýta úrræðið en áður, eða 85–95%. Þá er lagt til að hækka þak húsnæðisstuðningsins úr 75% í 90% af húsnæðiskostnaði. Auk þess er gerð sú breyting að þrepum verður fjölgað við ákvörðun hámarksfjárhæðar stuðningsins eftir fjölskyldustærð.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði vexti og verðbætur af sjóðfélagalánum hjá lífeyrissjóðum, en um er að ræða sams konar ívilnun og bankar hafa þegar veitt sínum lántakendum á sinn kostnað. Það skal segjast eins og er að það er umhugsunarvert að lífeyrissjóðir telji sér ekki fært að mæta yfirstandandi hamförum með sambærilegum hætti og aðrir lánveitendur. Gert er ráð fyrir að þessi kostnaður verði greiddur fyrir sex mánaða tímabil til samræmis við eftirgjöf bankanna og er kostnaður metinn um 140 millj. kr. en kostnaðarmatið tekur mið af heildarfjölda sjóðfélagalána hjá lífeyrissjóðunum. Miðað er við að úrræðið verði formfest í formi samnings milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og viðeigandi lífeyrissjóða.

Þá er loks í fimmta lagi gert ráð fyrir gjaldfærslu um 84 millj. kr. vegna vaxtaniðurgreiðslu við kaup á húsnæði í gegnum leigufélagið Bríeti en áformað er að kaupa 120 íbúðir til viðbótar þeim 80 sem gert var ráð fyrir í lok síðasta árs. Í frumvarpi þessu er lagt til að auka hlutafé í Bríeti um 3,4 milljarða kr. sem ætlað er að styðja við fyrirhuguð íbúðakaup. Vaxtaniðurgreiðslan helst í hendur við tillögu um hlutafjáraukningu. Með niðurgreiðslu vaxta er Bríeti gert kleift að bjóða Grindvíkingum leiguhúsnæði á viðunandi kjörum og stefnt að því að selja þær íbúðir um leið og færi gefst.

Í fjáraukalagafrumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á heimildarákvæði 6. gr. fjárlaga. Lagt er til að við greinina bætist einn liður sem heimilar að aukið verði við hlutafé í Leigufélaginu Bríeti ehf. til að styðja við tímabundin kaup félagsins á allt að 120 íbúðum sem leigja skal Grindvíkingum. Skilyrði er sett um endurgreiðslu hlutafjárins með lækkun hlutafjár þegar leysist úr húsnæðisvanda Grindvíkinga eða í síðasta lagi innan þriggja ára frá því að greiðslan var innt af hendi. Sambærileg heimild var sett í fjáraukalög fyrir árið 2023 til kaupa á 80 íbúðum til leigu fyrir Grindvíkinga. Jafnframt var veitt heimild í fjárlögum 2024 fyrir 50 millj. kr. vaxtaniðurgreiðslu til Bríetar svo að félagið gæti boðið ásættanlegt leiguverð. Bríet hefur þegar gengið frá kaupum á þessum 80 íbúðum og úthlutað til Grindvíkinga.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir helstu þætti þessa frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2024. Í ljósi aðstæðna er ljóst að þau gætu orðið fleiri þegar líður á árið, t.d. á enn eftir að útfæra endanlega uppgjör íbúðarhúsnæðis einstaklings og er kostnaður þess óljós. Sú vinna er á áætlun og má vænta tíðinda innan skamms.

Ég legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umræðu og hv. fjárlaganefndar þingsins sem tekur málið til þinglegrar meðferðar.