154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:24]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi atriði sem hún kemur hér inn á. Það er mjög mikilvægt að það komi fram að huga að þessu samspili við annað sem er gert, bæði hvað varðar Grindavík en líka almennt um hlutverk Bríetar á húsnæðismarkaði. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að það sé skýrt að það er í síðasta lagi innan þriggja ára frá því að greiðsla var innt af hendi sem gert er skilyrði um endurgreiðslu hlutafjárins. Hugmyndin er og uppleggið er, og það er skýr stefna og skýrt tekið fram og þarf að vera alveg á hreinu, að þetta er tímabundið ástand, þessi kaup á einmitt þessu svæði, hlutverk Bríetar er ekki hugsað hérna á höfuðborgarsvæðinu. Við nýtum þetta fyrirkomulag sem er til þess að mæta þessum tímabundna vanda, setjum það inn í löggjöf að það sé heimilt og það er alveg skýrt að það er stefnt að því að selja eignirnar að nýju þegar húsnæðisvandinn er leystur.

Ég myndi segja að það þyrfti miklu stærri umræðu ef við ætluðum að gera stefnubreytingu á þessu umhverfi og breyta hlutverki og eðli Bríetar almennt. Við lítum svo á að þetta sé bráðabirgðastaða, bráðabirgðavandi, og við nýtum þetta fyrirkomulag til að leysa þann vanda og getum gert það eins hratt og örugglega og kostur er. Þannig að þetta er ekki hugsað til langframa en það er mikilvægt að þetta gangi í gegn þannig að við getum brúað þetta bil þar til fólk getur farið í sínar fjárfestingar eða gert þær ráðstafanir sem það telur sig þurfa. En auðvitað getur einhver hluti þess hóps verið áfram á leigumarkaði, jafnvel í þessum íbúðum, þannig að það er þá sá tími sem áfram má líða. En eftir því sem fleiri fara annað þá mun þessi fjöldi íbúa út af þessu úrræði ganga til baka.