154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:00]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins að koma inn í þessa umræðu um norrænt samstarf og sérstaklega af því að hv. þingmaður ræddi um norrænt samstarf og varnar- og öryggismálin. Það hafa orðið gríðarlegar breytingar núna á örfáum árum þar. Mér datt í hug Stoltenberg-skýrslan frá 2010, Stoltenberg eldri, og síðan skýrslan sem Björn Bjarnason var í forsvari fyrir, ætli það hafi ekki verið 2020, kom svolítið í framhaldi af hinni og þeim miklum breytingum sem höfðu orðið. En síðan sú skýrsla var gerð hafa raunverulega orðið grundvallarbreytingar. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort það væri ekki eðlilegt að það yrði skoðað, af þeim fjölda þingmanna hér sem er í þessu starfi, í norrænu samvinnunni og í Norðurlandaráði, og hvort það væri ekki ástæða til að fara að huga að þessu strax en bíða ekki í fimm, sex ár í viðbót.

Það er rétt sem hv. þingmaður kemur inn á og það er eftirtektarvert að það eru t.d. 250 orrustuþotur í flugherjum Dana, Norðmanna, Svía og Finna. Þessi ríki, eins og Finnar og Norðmenn, hafa verið að endurnýja sinn flota með fullkomnustu F-35 vélum. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að þessi vinna fari af stað á nýjan leik. Það kemur líka mikið fram í tillögum í skýrslunni, þótt ég sé ekki með hana í höndunum þá man ég eitthvað af þessu, eins og með netöryggismálin sem er svona undir öllu í samfélögunum. Það væri líka eitthvað sem við þyrftum að vinna með, að við Íslendingar horfum kannski fyrst þangað. Þarna eru náttúrlega öflug ríki í þessum málum og við þekkjum að þetta eru ríki sem hafa staðið sig gríðarlega vel í þessu. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að þetta sé eðlileg nálgun, að fara að huga að þessu á nýjan leik og skoða sérstaklega þau mál sem snúa að þessu?