154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:06]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru að mínu mati skemmtilegar og nauðsynlegar umræður og ég þakka hv. þingmanni fyrir að minna mig á flugvöllinn í Pristína, sem var auðvitað risavaxið verkefni líka. Það er auðvitað langeðlilegast, vegna þess að Danir hafa viðveru hér á þessu svæði út af tengslum sínum við Færeyjar og Grænland, að okkar samstarf við þá sé náið og kannski nánara en við önnur Norðurlönd, hugsanlega þó líka Noreg sem er auðvitað nágranni okkar ef litið er aðeins norðar.

Fyrir skömmu kom út bók sem var að mörgu leyti áhugaverð, skrifuð af fyrrum skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, Arnóri Sigurjónssyni, um íslenskan her. Það er auðvitað eitthvað sem margir óttast að nefna á nafn hér í þessum sölum, enda gefum við Íslendingar okkur út fyrir það að vera herlaus þjóð og erum stolt af því. Þar kom fram að við erum auðvitað að reka alls konar þjónustu og störf sem eru undir hatti slíkra fyrirbæra í öðrum ríkjum og til að taka þátt í svona samstarfi herja, varnarsamstarfi. Þá þarf kannski ekkert að stofna til nýrra stofnana að einhverju leyti heldur kannski frekar að taka til í því hvernig þær eru skipulagðar og undir stjórn hverra þær eru og hverjir hafa ábyrgðina á aðgerðum á vettvangi o.s.frv. Það er ýmislegt sem má skoða í þessu samhengi og verður spennandi að sjá hvaða stefnu þessi mál taka í nánari samvinnu við Norðurlöndin öll þegar kemur að varnarmálum.