154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:24]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst aðeins vegna þess að hv. þingmaður nefndi það hvað fullvalda og sjálfstæðar þjóðir gera þá rifjaðist það upp fyrir mér sem hann kom inn á í ræðu sinni hér fyrr í umræðunni, sem mér fannst dálítið góður punktur, varðandi hlutverk Landhelgisgæslunnar við að t.d. gæta efnahagslögsögunnar og stjórnvalda við að fylgjast með lofthelgi Íslands. Það er einmitt gott dæmi um borgaralegt verkefni sem stjórnvöld hafa bara ekki sinnt nógu vel, sem sést einna best af umræðunni um þá hugmynd fyrrverandi dómsmálaráðherra um að selja flugvél Gæslunnar. Ef TF-SIF væri seld úr landi þá hefðum við ekki lengur þá björgunargetu sem hún býður upp á, sem er í rauninni forsenda þess að við getum borið ábyrgð á þessu loftrými sem er í kringum Ísland. Staða flugvélarinnar er hins vegar ekkert sérstaklega góð þótt við eigum hana vegna þess að hún er í verkefnum suður í Miðjarðarhafi að stjaka flóttafólki aftur yfir til Afríku á vegum Frontex. Frekar en að sinna íslenskum öryggishagsmunum hér í kringum landið þá er hún leigð úr landi megnið af árinu til að Gæslan geti náð jafnvægi í efnahagsreikningnum. Þetta er einhver skýrasta birtingarmynd sveltistefnu sem rímar engan veginn við þá sjálfsmynd sem ég held að alla vega hluti ríkisstjórnarinnar hafi varðandi eigin afstöðu til öryggismála. Hvaða Sjálfstæðismaður myndi halda því fram að við værum með allt niður um okkur í því að gæta efnahagslögsögunnar og loftrýmis í kringum Ísland? Ég held fáir. Það er hins vegar það sem þeir gera með fjárveitingum til Gæslunnar.

Varðandi lágspennusvæðið, jú, mér var tíðrætt um þetta en það er líka hluti af samþykktri norðurslóðastefnu Íslands að þetta svæði eigi að vera lágspennusvæði. Auðvitað eru það stærstu og herskáustu aðilarnir á svæðinu sem eru að gíra upp spennuna. Við eigum bara ekki að taka þátt í þeim leik. (Forseti hringir.) Við eigum að tala fyrir því að það sé dregið úr spennu og velta því upp hvort þær framkvæmdir (Forseti hringir.) sem eiga sér stað á Keflavíkurflugvelli séu skref í þá átt eða ekki.