154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Sú gistiaðstaða sem er verið að koma upp á Keflavíkurvelli þjónar ekki bara loftrýmisgæslu þegar hún er gerð út héðan af landi heldur getur hún líka þjónað starfsemi sem stendur lengur yfir á vellinum. Þá 12.000 fermetra af vöruskemmum, mig minnir að það sé rétta talan, sem Bandaríkjaher ætlar að koma sér upp á vellinum, á að fylla af hergögnum sem hægt er að koma annaðhvort eitthvert annað eða nýta hér á landi. Þetta er einfaldlega hluti af þeirri stefnu bandarískra stjórnvalda að vera síður með varanlegar herstöðvar þar sem þau vilja geta gert út og frekar vera með aðstöðu til þess að það sé hægt að koma fyrir til skemmri tíma slíkum stöðvum. Hvað hv. þingmaður hefur heyrt í kynningum, væntanlega á lokuðum fundum sem við fréttum sjaldnast af, er svo annað mál en væri auðvitað eitthvað sem væri fróðlegt fyrir þingheim að heyra vegna þess að engar upplýsingar fylgdu um þetta. Þegar umræðan byrjaði þarna 2019, í kringum fjármálaáætlun, var tilfærslan á milljónunum 300 einfaldlega útskýrð sem svo að þetta væri vegna venjubundins viðhalds á öryggissvæðinu í Keflavík. Það kom svo annað í ljós.

Setur um rannsóknir í varnarmálum. Við ræddum þetta einhvern tímann þegar hv. þingmaður mælti fyrir tillögu sinni um slíkt setur. Mér hefur nú þótt rannsóknum á þessu sviði sinnt ágætlega og þó að stofnunin sem sinni því heiti Alþjóðamálastofnun en ekki eitthvað með orðinu „varnir“ í nafninu þá hefur mér sýnst að hún geri það bara ágætlega. Hún starfrækir þar að auki friðarsetur sem ég held að sé (Forseti hringir.) mjög gagnlegt innlegg Íslands í umræðu á alþjóðavísu. Mér þætti eðlilegt að leyfa fólkinu í (Forseti hringir.) Alþjóðamálastofnun að leyfa þessu að þróast áfram á þeim forsendum sem fræðin kalla eftir.