154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[13:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa bara í atkvæðagreiðslu hér um aðild Svía og Finna að NATO í þessum sal fyrir einu og hálfu ári. (NTF: Júlí 2022.) Það eru að verða tvö ár, eitt og hálft ár heitir það. Þá studdi ég ekki þá breytingu á Atlantshafssamningnum. En það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir að staðan í Úkraínu, innrás Rússa, hefur skilað miklu í breyttu áliti almennings í mjög mörgum löndum og sýnir okkur ágætlega að óttinn er gríðarlegur drifkraftur þegar kemur að breyttu viðhorfi. Það þýðir ekkert endilega að hann skili alltaf réttri niðurstöðu.

Nú langar mig kannski að flakka hérna á milli Íslandsdeilda vegna þess að við hv. þingmaður sitjum saman í Íslandsdeild NATO-þingsins og þar er t.d. mjög mikil umræða um framlag aðildarríkja til varnarmála og viðmiðið um 2% af landsframleiðslu er eitthvað sem er ítrekað bent á. Þá koma lönd, sérstaklega smærri ríki, og segja: Þarf það endilega að vera meitlað í stein? Tökum Lúxemborg sem dæmi, leggur 1% í varnarmál en er samt það lítið ríki og með það litla landsframleiðslu að þetta skilar þeim her sem er bara ansi brúklegur. Ef þau færu að leggja annað prósent inn í þetta væri það eingöngu til þess að styrkja hergagnaiðnað í einhverjum öðrum löndum og kaupa fullt af dóti sem þau þyrftu síðan að gefa frá sér af því að þau hafa ekki pláss fyrir það. Það sem þau hins vegar segja er: Við leggjum hins vegar prósent í þróunarsamvinnu og tryggjum þar með öryggi í heiminum. (Forseti hringir.) Við megum nefnilega ekki vera of einstrengingsleg að líta á varnarmál sem hernaðarvarnir þegar ógnir við öryggi og frið í heiminum eru oftast (Forseti hringir.) af einhverjum frumstæðari orsökum eins og því að fólk skortir menntun, vatn, mat, húsnæði og heilbrigðisþjónustu. Það er peningur sem er vel varið.

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)