154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Vestnorræna ráðið 2023.

608. mál
[13:53]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mun hér gera grein fyrir starfi Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2023 og stikla á stóru. Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Í ráðinu sitja sex þingmenn frá hverju landi. Aðalmenn í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins voru við upphaf árs 2023 auk mín, hv. þingmenn Eyjólfur Ármannsson varaformaður, þingflokki Flokks fólksins, Ásmundur Friðriksson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristrún Frostadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingflokki Viðreisnar og Þórarinn Ingi Pétursson, þingflokki Framsóknarflokks.

Í september urðu þær breytingar á skipan Íslandsdeildar að Jón Gunnarsson tók sæti Ásmundar Friðrikssonar sem aðalmaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson úr þingflokki Miðflokksins tók sæti Kristrúnar Frostadóttur.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins tók virkan þátt í starfi ráðsins á árinu og vann að framgangi vestnorrænna mála á Alþingi. Íslandsdeildin lagði fram tillögu til þingsályktunar á 153. þingi um framfylgd fjögurra ályktana Vestnorræna ráðsins sem samþykktar voru á ársfundinum 2022. Tillagan var samþykkt sem ályktun Alþingis nr. 16/153 hinn 23. maí 2023. Vestnorræna ráðið er ólíkt öðru alþjóðastarfi sem Ísland tekur þátt í að því leyti að tillögur sem samþykktar eru í ráðinu eru jafnframt lagðar fram til samþykktar á þjóðþingunum þremur.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt níu fundi á árinu þar af einn sameiginlegan fund með Íslandsdeild Norðurlandaráðs og Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál. Þetta kom hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir einnig inn á í skýrslu um starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs hér áðan. Málefni þessara Íslandsdeilda hafa nefnilega þó nokkra snertifleti og gagnlegt er að funda sameiginlega um sameiginleg áherslumál og einnig til að skiptast á upplýsingum um hvað er að gerast í þessu samstarfi og að hverju hinar Íslandsdeildirnar eru að vinna að.

Á hefðbundnu starfsári kemur ráðið saman tvisvar, þ.e. þingmennirnir 18 samanlagt frá öllum löndunum þremur, annars vegar á þemaráðstefnu að vetri og hins vegar á ársfundi að hausti. Á árinu 2023 fór þemaráðstefnan fram í Þórshöfn í Færeyjum og ársfundurinn var haldinn hér í þessum sal, sem Alþingi var svo vinsamlegt að lána okkur undir ársfundinn.

Þemaráðstefnan fór fram í Þórshöfn í Færeyjum dagana 6.–10. febrúar. Óveður setti strik í reikninginn og varð grænlenska landsdeildin veðurteppt í Kaupmannahöfn og tók þátt í ráðstefnunni í gegnum fjarfundabúnað. Þetta er svolítið þekkt stef í samstarfi þessara landa. Við búum mjög norðarlega og allra veðra er von, sérstaklega á veturna, en tæknin bjargaði því sem bjargað varð þarna. Það var auðvitað mikil synd að grænlenska landsdeildin kæmist ekki á staðinn til að taka þátt í fundinum en þó skömminni skárra að hún gat þó verið með í fjarfundabúnaði. Yfirskrift ráðstefnunnar var Fæðuöryggi og sjálfbærni á Vestur-Norðurlöndum. Áhersla var lögð á að styrkja vestnorræna samvinnu á sviði matvælaframleiðslu, sjálfbærni og fæðuöryggis. Utanaðkomandi áhrif á borð við heimsfaraldur og árásarstríð Rússa í Úkraínu sýna glöggt hve mikilvægt er að tryggja eigin fæðuöryggi.

Ársfundur ráðsins var, eins og áður sagði, haldinn hér í þessum þingsal í lok ágúst. Á honum voru samþykktar fjórar ályktanir sem verða sendar til þjóðþinga landanna þriggja til umfjöllunar og ríkisstjórna. Þar eru stjórnvöld og ríkisstjórnir hvattar til samvinnu, fundahalda og að skiptast á reynslu sinni. Þrjár þessara ályktana tengjast fæðuöryggi, ein fjallar um hafið sem matarkistu okkar á Vestur-Norðurlöndum, önnur um sameiginlegar vestnorrænar næringarráðleggingar og sú þriðja um matarsóun. Fjórða ályktunin hvetur stjórnvöld til að kanna möguleika á auknu samstarfi í tengslum við lýðskóla, danska orðið er „efterskole“, með leyfi forseta. Þar er námsframboð fyrir nemendur á aldrinum 14–18 ára sem ekki eru í hefðbundnu námi. Við höfum í rauninni ekki þetta námsframboð hér en gætum tekið þátt í því með hinum vestnorrænu löndunum ef þessi tillaga yrði samþykkt.

Í tengslum við ársfundinn hélt Vestnorræna ráðið opinn borgarafund í Norræna húsinu í Reykjavík. Þetta var fyrsti opni borgarafundurinn sem ráðið heldur en ákvörðun var tekin um að halda slíkan fund á ársfundi ráðsins í Nuuk árið 2022. Umfjöllunarefni fundarins var hvað vestnorrænu löndin eiga sameiginlegt og á hverju samvinna þeirra byggist en fundurinn heppnaðist mjög vel og aðsókn var ekki bara góð heldur fór hún fram úr okkar björtustu vonum. Það er verið að skipuleggja það í tengslum við næsta ársfund sem verður haldinn í Færeyjum að þá verði haldinn svona opinn borgarafundur þar.

Á ársfundinum í ágúst tók Jenis av Rana, formaður færeysku landsdeildarinnar, við sem formaður Vestnorræna ráðsins en fram að því hafði ég gegnt formennsku ráðsins í eitt ár frá ágúst 2022. Í Vestnorræna ráðinu er sá háttur hafður á að löndin skiptast á að fara með formennsku eitt ár í senn. Sem formaður Vestnorræna ráðsins tók ég þátt í fundi þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem fram fór í Washington í apríl en Vestnorræna ráðið og þingmannanefnd um norðurskautsmál hafa gert með sér samstarfssamning. Á fundinum var helst á dagskrá starf þingmannanefndarinnar og hvernig hægt er að halda starfinu áfram án þátttöku Rússa eftir innrás þeirra í Úkraínu. Jafnframt voru rædd þau mál sem brenna á öllum samfélögum á svæðinu, þ.e. loftslagsbreytingar, staða ungs fólks og framtíðarþróun svæðisins.

Þá hélt Vestnorræna ráðið í samstarfi við Norðurlandaráð og þingmannaráðstefnu um norðurslóðamál málstofu á Hringborði norðurslóða sem fram fór í Reykjavík í október. Málstofan bar yfirskriftina Fæðuöryggi og sjálfbærni á norðurslóðum. Mikilvægi þess að nota auðlindir á sjálfbæran hátt og velja heildstæða nálgun þegar kemur að fæðuöryggi voru aðaláherslur umræðunnar.

Venju samkvæmt tók forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins þátt í þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Stórþinginu í Ósló að þessu sinni. Í forsætisnefnd eiga formenn landsdeildanna þriggja sæti, einn frá Íslandi, einn frá Færeyjum og einn frá Grænlandi. Forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins fundar við það tækifæri með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og á auk þess fund með samstarfsráðherrum Vestur-Norðurlandanna. Fundarefnin voru þau fjölmörgu sameiginlegu málefni ráðanna tveggja, svo sem fæðuöryggi, samfélagslegt öryggi, málefni ungs fólks o.fl.

Í nóvember fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins með DEEA nefnd Evrópuþingsins í Brussel. Sú nefnd sinnir samskiptum Evrópuþingsins við Sviss, Noreg, Ísland og EES auk norðursins. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson, varaformaður Íslandsdeildar, sótti fundinn af hálfu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Helstu mál á dagskrá voru norðurslóðamál, öryggismál og loftslagsmál.

Virðulegur forseti. Ég hef nú stuttlega farið yfir starfsemi Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins fyrir síðastliðið ár en vísa að öðru leyti til ársskýrslunnar í heild sem liggur frammi og er aðgengileg á vef Alþingis. Ég vil einnig nota þetta tækifæri og þakka þingmönnum Íslandsdeildarinnar fyrir ánægjulegt og ekki síður skemmtilegt samstarf á síðastliðnu ári.