154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Vestnorræna ráðið 2023.

608. mál
[14:07]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurninguna. Fyrst langar mig að segja að notkun á dönsku hefur verið talsvert til umræðu í Vestnorræna ráðinu að undanförnu og við höfum svona aðeins verið að þróa okkur áfram með notkun á túlkabúnaði, því að það sýnir sig að þingmenn, sérstaklega Íslands og Grænlands en þó einnig Færeyja, sem eiga þó auðveldast með dönskuna, geta átt í miklu dýpri samræðum með því að tjá sig á móðurmáli sínu. Það er bara staðreynd sem við þurfum að taka með í reikninginn í okkar starfi. Hvert og hvernig það mun þróast get ég ekki sagt til um en hér er einhvers konar gerjun í gangi.

Varðandi beina aðild Færeyja og Grænlands að Norðurlandaráði þá sat ég, líkt og hv. þingmaður, og hlustaði á ræðu Mútes B. Egedes á fundi Norðurlandaráðs, sem var mjög áhrifamikil, og ég hef líka heyrt hvað Færeyingar hafa segja. Þetta hefur ekki verið tekið upp sem einhver formlegur liður til umræðu innan Vestnorræna ráðsins en það er hins vegar þannig að við höfum einfaldlega hlustað á það hvernig sérstaklega Grænland telur heppilegast fyrir sig að haga málum til þess að þeirra rödd heyrist sem tærast í þessu samstarfi. Við höfum hingað til, þótt bara með óformlegum hætti sé, hlustað á og stutt við þeirra málflutning.