154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Vestnorræna ráðið 2023.

608. mál
[14:22]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem upp í andsvar fyrst og fremst til að þakka hv. þingmanni fyrir að stíga hér inn í þessa umræðu og vera svona jákvæður í garð þessa samstarfs. Ég er hjartanlega sammála því að kunnátta í dönsku eigi ekki að vera grundvöllurinn að því hvort hægt sé að taka þátt í vestnorrænu samstarfi og í rauninni að tungumálakunnátta sé fyrsta varðan að því að geta tekið þátt í einhvers konar samstarfi. Þetta fjallar auðvitað um það að hafa eitthvað pólitískt inn í umræðuna að leggja.

Varðandi stöðu nágranna okkar sem ekki eru sjálfstæð ríki, í það minnsta ekki enn þá, inni í Norðurlandaráði langar mig að segja — og hér tala ég fyrir mig persónulega en ekki fyrir hönd alls Vestnorræna ráðsins þótt ég haldi að við séum á svipuðum slóðum — að mér finnst mikilvægt, vegna þess að það eru skiptar skoðanir um hvort löndin eigi að verða sjálfstæð innan landanna, að við hlustum eftir því og það eru líka skiptar skoðanir á því á hvaða hraða það eigi að gerast og auðvitað eigum við að hlusta eftir því. En hins vegar tel ég að þegar kemur að starfinu í Norðurlandaráði eigi að vera hægt að koma því þannig fyrir að þau sjálfstjórnarsvæði sem þarna eru hafi þar sama rétt og sjálfstæðu ríkin. Ég held að það myndi styrkja þetta svæði og auðvitað þessi lönd líka inn í hið norræna samstarf.