154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Vestnorræna ráðið 2023.

608. mál
[14:26]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður kom inn á atriði sem mér finnst mikilvægt inn í þetta norræna samstarf. Okkur á Íslandi hefur stundum þótt við vera svolítið á jaðrinum, verandi eyja og einmitt talsvert langt frá Eyrarsundi, en kannski má segja að að hluta til gildi það sama um nyrstu svæðin í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Þau eiga ákveðna hluti sameiginlega með okkur hér á Vestur-Norðurlöndum, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, og ég held þess vegna að það sé gott að fá þessar áherslur líka inn í samtalið sem á sér stað í Norðurlandaráði.

Vegna umræðunnar um tungumál, og ég skal ekki segja hvert hún mun þróast í framtíðinni, þá langaði mig bara að nota tækifærið og koma því að að á næstu þemaráðstefnu sem halda á í Tasiilaq á Austur-Grænlandi núna í mars ætlum við að ræða stöðu örtungumála í hinum stafræna heimi. Það held ég að sé ekki síður mikilvægt — af því að hér höfum við verið að ræða um fríverslun og ýmislegt og áherslan í fyrra var svolítið mikið á fæðuöryggi en nú verður áherslan mikið á stöðu tungumálanna — bæði fyrir okkur sem svæði þar sem við eigum það sameiginlegt að tala öll örtungumál, og íslenskan er þar allt í einu langstærst í samhengi hlutanna. Eins skiptir þetta svo miklu (Forseti hringir.) fyrir sjálfsmynd okkar ríkja sem þjóðar. Þar held ég að við eigum sérstaklega að horfa á stöðu grænlenskunnar sem er mikilvægt að spjari sig inni í framtíðinni.