154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:39]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, eins og ég kom inn á áðan um aukna viðveru í Brussel þá held ég að það sé mikilvægt. Ég lagði áherslu á það áðan að ég held að við eigum að bæta við hana, ekki síst með tilliti til álags þó að ég geri ráð fyrir því að fulltrúarnir geti hjálpast að, sem þeir gera. Við heimsóttum þau einmitt, þá vantaði reyndar fulltrúa frá einu ráðuneyti, og kannski þurfum við að gefa okkur tíma til að heimsækja þau aftur til að fylgjast betur með hvernig vinnan gengur og hvernig álagið er og annað slíkt.

Varðandi aðild að Evrópusambandinu og þetta með aukaaðildina þá eru auðvitað skiptar skoðanir, það eru meira að segja skiptar skoðanir í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og hreyfingunni yfirleitt. Eins og hv. þingmaður rakti hér áðan var farið í þessar viðræður á sínum tíma en voru svo stöðvaðar þegar ný ríkisstjórn komst að. Áherslurnar finnst mér sveiflast eftir tíðarandanum, mér finnst þær sveiflast eftir stöðu gengisins. Þegar illa árar og vaxtaumhverfið er erfitt eins og núna þá eru fleiri sem vilja taka upp evru og ganga jafnvel í Evrópusambandið. Ég tek undir með hv. formanni þessarar EFTA-nefndar, ég held að við séum of lítil til að hafa kannski þau völd sem við myndum telja okkur eiga að hafa þarna inni. Ég hef líka setið Evrópuráðsfundina og þar erum við bara pínulítið ber í risastórum þingsal. Auðvitað skipta raddir okkar alls staðar máli. En ég er ekki sannfærð um að útkoman verði (Forseti hringir.) jafn árangursmikil og margur heldur með því að ganga í sambandið þó að ég útiloki það heldur ekki.