154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:42]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið og deili áhuga hennar á því að hafa sem mesta viðveru þarna og fylgja sem best eftir hagsmunum Íslendinga í Evrópusamstarfinu. Varðandi áhuga á inngöngu í Evrópusambandið og efnahagsmál þá er það hárrétt hjá bæði hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur og hv. þm. Ingibjörgu Isaksen sem talaði hérna áðan, að það helst í hendur. Ég man ekki eftir ríki sem hefur gengið inn í Evrópusambandið eða forvera þess í efnahagslegum styrkleika. Það gerist yfirleitt til þess að styrkja efnahaginn heima fyrir vegna þess að stór hluti Evrópusamstarfsins snýst auðvitað um efnahagsmál og snýst um að nýta þá kosti sem opinn og frjáls markaður hefur upp á að bjóða. Við erum þátttakendur í því en okkur stendur til boða að taka þátt í víðtækara samstarfi og vera þar aðilar að ákvarðanatökum. Það er mín skoðun og hefur verið lengi að það væri hagfellt fyrir okkur. Við erum að sjá núna að hlutir geta auðvitað breyst í alþjóðlegu samstarfi. Við erum búin að vera að tala hérna um Norðurlandasamstarfið fyrr í dag og í tengslum við öryggismál og við sjáum hvernig umræðan um öryggismál á vettvangi Norðurlandaráðs hefur breyst með inngöngu Finna í NATO og væntanlegri inngöngu Svía í NATO. Ég velti upp þeirri spurningu til hv. þingmanns, úr því að formið er með þeim hætti, hvort hún sjái fyrir sér að það gæti hugsanlega styrkt samstarf Norðurlandanna á vettvangi efnahagsmála og alls konar annarra mála ef þau öll væru innan borðs hjá Evrópusambandinu.