154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að eiga orðastað við hv. þingmann vegna þess að hún ræddi aðeins fríverslunarsamninga sem EFTA-ríkin gera við þriðju ríki og það sem við hljótum að geta kallað jákvæða þróun, sem er aukin áhersla á mannréttindi, jafnrétti, loftslagsmál í þeim samningum. Vandinn er hins vegar, eins og hv. þingmaður nefndi, að eftirlitið með þessu er mjög lítið. Miðað við eftirlit með fjárhagslegum hagsmunum í samningnum þar sem eru gerðadómsferli og alls konar formlegar leiðir til að taka á hlutum þá er enginn aðili með þá ábyrgð að sjá til þess að þróun mannréttindamála t.d. sé í jákvæða átt, hvað þá að einhver viti hvað eigi að gera ef svo er ekki. Þetta er eitthvað sem ég held að þurfi að takast á við svo þetta sé ekki bara punt á forsíðunni. Þetta er umræða sem ég held að sé ekki búið að þroska nóg innan EFTA og ekki heldur innan ESB þar sem umboðsmaður Evrópusambandsins hefur gagnrýnt framkvæmdastjórnina fyrir að vera sama marki brennd þegar kemur að þessum sérstöku ákvæðum í fríverslunarsamningum.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann um einn samning sem hefur verið í vinnslu nokkuð lengi. EFTA-ríkin fylgja nú oft í kjölfarið á ESB þegar kemur að því að gera stærri samninga og Evrópusambandið hefur á síðustu árum verið að reyna að semja við svokölluð Mercosur-ríki; Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ. Þessi samningur hefur mætt mikilli andstöðu hjá fólki sem stendur félagshyggjumegin í lífinu og umhverfismegin vegna þess að þarna er hætt við að líffræðilegur fjölbreytileiki verði skertur í suðurhluta Ameríku, skógareyðing aukist, átök og mannréttindabrot geti jafnvel aukist og (Forseti hringir.) velferð dýra verði ekki í hávegum höfð. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig Íslandsdeildin (Forseti hringir.) hefur tekið á umræðum um þennan samning hvað varðar EFTA, hvort við séum svona mátulega á bremsunni gagnvart þessum samningsumleitunum.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)