154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Eins og ég sagði áðan er það áhyggjuefni að það sé ekki fylgst með þessu og þetta er eitthvað sem maður þarf sífellt að vera að ræða og minna á að það er ekki nóg að þetta sé bara eitthvað á blaði til þess að friðþægja einhverja heldur þarf að finna farveg. Þetta á við um Evrópusambandið sjálft líka, ekki bara hjá okkur. Varðandi Mercosur-ríkin var ég í hópi á síðasta kjörtímabili þegar einmitt var verið að ræða við þessi ríki, Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ, og það komu alveg augljóslega fram þar, þó að það væri ákveðið að halda því vakandi, sem var gert, ákveðnar áhyggjur af mörgum þessara mála sem hv. þingmaður nefndi. Núna er það þannig að eftir að þessar forsetakosningar fóru fram síðast, og síðustu samningaviðræður voru árið 2019, þá ákvað EFTA bara að fylgjast með því hvernig þetta myndi þróast í álfunni og ef tækifærin sýndust vera þannig þá væri ástæða til að skoða hvort taka ætti upp viðræður. Ég hef líka áhyggjur af því að EFTA hefur verið að ræða við Indland. Það er ríki sem ég hef mínar efasemdir um og sagði á fundum nefndarinnar að ég hefði áhyggjur af því, ekki síst út af mannréttindamálum sérstaklega, barnaþrælkun og alls konar sem þarna er undir. Það kemur líka fram hérna um þessi Afríkuríki, ég kem kannski betur að því á eftir, og önnur ríki sem er vert að ræða líka.