154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2023.

656. mál
[15:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Þetta er einmitt það sem við þurfum að gera. Við þurfum að koma fram okkar áhyggjum og okkar leiðum til að reyna að finna út úr því hvernig við getum virkjað eftirlit með þessu, að þetta séu ekki bara orð á blaði. Í febrúar var verið að ræða m.a. um alþjóðaviðskipti og rætt við aðalframkvæmdastjóra WTO, Okonjo-Iweala, ef ég get sagt það rétt, og rætt um stöðu lágtekjulanda eftir Covid-faraldurinn, að neyðin hefði aukist eins og við þekkjum svo víða. Það var rætt um samspil viðskipta og félagslegs réttlætis og lausn deilumála og hvernig fæðuöryggi væri tryggt og allt það. Hún lagði mikla áherslu á að það þyrfti að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki og styrkja samkeppnisstöðu bænda í þróunarríkjunum. Eins og við þekkjum er staða mála í Afríku gríðarlega erfið. Ríkin reiða sig mjög mikið á innflutt matvæli á meðan þau standa aðeins fyrir, eins og hér kemur fram, 3% alþjóðlegra viðskipta í heiminum. Það eru gríðarleg tækifæri fyrir þau sem við þurfum að standa með í staðinn fyrir að skilja þau kannski eftir. Og ég held að þetta sé eitt af því sem þessir aðilar eru í rauninni að reyna að beita sér fyrir. Ég tel að nefndin núna sé bara mjög meðvituð um það að þetta eru angar sem við þurfum að horfa til.. Og talandi um þessa þróun sem hefur átt sér stað í orðræðunni í nefndinni þessi ár sem ég er búin að vera í henni, mér finnst hún einmitt vera í þessa veru. (Forseti hringir.) Við erum líka bara miklu kjarkaðri á vettvangi heldur en við vorum kannski svona þegar ég var fyrst að byrja.