154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að fara yfir skýrslu Íslandsdeildarinnar og fyrir áhugasömustu áheyrendur liggur hún fyrir á vef Alþingis og er enn efnismeiri en sú yfirferð sem hér var boðið upp á. NATO-þingið er dálítið skrýtin skepna. Eins og hv. þingmaður nefndi þá er þetta óháð NATO sjálfu. Þetta er eining sem varð til nokkrum árum eftir að Atlantshafsbandalagið var stofnað vegna þess að þingmönnum fannst þeir þurfa einhvern vettvang til að ræða saman á sama hátt og ráðherrum ríkjanna hafði verið kleift um nokkurra ára skeið. Fyrir vikið hefur NATO-þingið enga formlega aðkomu að NATO og öll samskipti á milli þessara tveggja eininga byggja á gagnkvæmum skilningi á mikilvægi samtalsins.

Eins og hv. þingmaður lýsti hefur þetta samstarf verið nokkuð náið á síðustu árum og þeir sem eru eldri í þessu starfi segja að það sé bara með því besta sem þekkst hefur í langan tíma. En fyrir vikið þá líka sigtast kannski fólk inn — ég veit ekki, ef það væri beinni aðkoma þá held ég að samsetning hópsins væri mögulega önnur. Þarna er ekki beinlínis verið að takast á um hagsmuni sem tengjast síðan einhverjum rekstri eða stefnumörkun heldur er þetta málfundur þingmanna sem ég myndi segja að væru oft þeir áhugasömustu um varnarmál í hverju landi fyrir sig og fyrir vikið verður umræðan kannski oft aðeins skökk myndi ég segja. Þarna mæta hörðustu varnarmálasinnarnir úr hverju landi og svo nokkrir inni á milli sem eru kannski ekki á sama stað á skalanum og þar myndi ég núsetja sjálfan mig.

Við erum reyndar nokkur þess eðlis sem höfum verið að móta okkur einhverja sameiginlega sýn á það hvernig sé hægt að haga starfi innan þessa félagsskapar, sem er svona harðari í umræðu en að meðaltali, til að koma annars konar áherslum á dagskrá. Þarna vill svo skemmtilega til að eru tveir píratar. Auk þess sem hér stendur er lúxemborgískur pírati í NATO-þinginu og ég held að það sé örugglega heimsmet í fulltrúum pírata í alþjóðastofnunum. Við, ásamt nokkrum græningjunum frá Evrópu og öðrum líkt þenkjandi þingmönnum, höfum verið aðeins að stinga saman nefjum um að setja jafnvel saman formlegan þingflokk, getum við víst kallað það. Það eru fyrir þrír þingflokkar og enginn þeirra passar okkur almennilega þannig að okkur datt í hug að vera bara okkar eigin þingflokkur sem gæti ýtt ákveðinni umræðu áfram. Þarna eru t.d. fulltrúar sem tala mjög mikið um femíníska nálgun á utanríkismál og varnarmál og ekki vanþörf á þegar meðal NATO-þingmaðurinn er ekki almennt á stað innan femínista, eiginlega dálítið á öðrum stað í lífinu. Þarna er líka mikið verið að reyna að ýta á aukna áherslu á loftslagsmál. Við erum svo sem ekkert ein í því en pössum okkur að pota því að sem víðast í umræðunum.

Síðan höfum við verið að reyna að setja aðeins meira kjöt á beinin varðandi umræðu um afvopnunarmál sem hefur orðið í rauninni meira aðkallandi á síðustu árum. Mann hefði kannski ekki grunað að árið 2024 værum við mikið að ræða kjarnorkuógnina. Það virkar dálítið kaldastríðslegt en raunin er náttúrlega sú að eins og Rússland hefur verið að haga sér á undanförnum misserum þá er sú ógn orðin miklu nær kjarnanum í öryggis- og varnarumræðu á alþjóðavísu. Rússland er t.d. búið að tæta í sig eiginlega alla alþjóðasamninga á þessu sviði sem þó héldu eitthvað aðeins utan um málaflokkinn, en er þar að auki búið að færa — eða hvort þau voru búin að því, ætluðu alla vega að gera það — kjarnorkuflaugar inn til Belarús en heldur sjálft áfram stjórn yfir þeim. Svona æfingar eru náttúrlega ekki til að auka stöðugleika. Þarna er verið að ógna með kjarnavopnum á þann hátt sem verður að segja stopp við. Vandinn er hins vegar sá að kjarnavopn eru einn af hornsteinum grunnstefnu NATO. Það stendur hins vegar í sömu grunnstefnu að stefnan sé heimur án kjarnorku og þangað til muni NATO halda áfram að vera kjarnorkubandalag.

Það sem við í þessum pírata- og græningjahópi í NATO-þinginu prófuðum að gera á vorfundi þingsins í Lúxemborg í fyrra var að leggja til breytingu við ályktun fundarins um að við myndum aðeins herða á framtíðarsýninni, að hún væri skýrari, að kalla eftir einhverjum praktískum skrefum varðandi það hvernig væri hægt að ná þessu endanlega markmiði NATO, sem er sama markmið og markmið hörðustu friðarsinna; heimur án kjarnavopna. Bandalagið þarf bara að sýna á einhver spil, sýna hvernig þær þjóðir sem eru innan NATO, sem ég vænti þess að líti á sig sem ábyrg kjarnorkuveldi, hvernig þau ríki skera sig frá t.d. Rússlandi sem við getum öll verið sammála um að er óábyrgt kjarnorkuríki. Þessi æfing okkar hlaut ekki brautargengi á vorfundi NATO-þingsins í fyrra en við höldum okkur við efnið og munum ekki gefast upp.

Þetta er líka eitthvað sem íslensk stjórnvöld mættu aðeins hafa í huga þegar ráðherrarnir okkar mæta á þessa fundi. Það er ekkert sjálfsagt að ríkisstjórn Íslands kvitti upp á hverja einustu setningu í grunnstefnunni. Þess þekkjast dæmi frá fyrri tíð þegar ríki settu fyrirvara við ákveðna þætti stefnunnar. Land eins og Ísland, herlaust ríki sem gumar sig af því að vera boðberi friðar í heiminum og er með þjóðaröryggisstefnu þar sem talað er um að landið sé friðlýst fyrir kjarnavopnum, ætti kannski að hugleiða þegar kemur að því að uppfæra plagg eins og grunnstefnu NATO að gera fyrirvara við þann þátt sem snýr að kjarnavopnum ef við viljum taka þessa hugsun sem er hér fest í þjóðaröryggisstefnunni alla leið.

Þetta var annað atriðið sem mig langaði að nefna. Hitt snýr að lítilli nefnd sem ég hef fengið að vera þátttakandi í núna í tvö ár, hópur þingmanna NATO-þingsins sem fundar tvisvar á ári með úkraínsku þingfólki. Köllum við það ekki þingmannaráð NATO-þingsins og Úkraínu, eitthvað álíka? Gríðarlega gagnlegt samtal og mikilvægt fyrir báða aðila. Mig langar bara að nefna að það er einkenni á úkraínsku þingfólki þegar það mætir á svona fundi hvað þau eru samstillt í því sem þau kalla eftir varðandi stuðning frá aðildarríkjum NATO þó að þau greini á um ýmislegt í pólitíkinni heima fyrir. Á sumum fundum er verið að kalla eftir ákveðnum tegundum af hergögnum sem Ísland getur náttúrlega ekkert hjálpað þeim með. Á síðasta fundi voru þau að kalla eftir því að á næsta leiðtogafundi yrðu stigin einhver konkret skref sem vörðuðu leiðina í átt að aðild Úkraínu, þó að ekki væri kannski opnað á aðildarviðræður væru gefin fyrirheit sem þau gætu tekið heim til Kyív og sagt: Heyrðu, hér er eitthvað að fara að gerast. Síðan er atriði sem þau nefna reglulega sem Ísland getur tekið til sín og það snýr að öðrum aðgerðum. Í fyrsta lagi eru það efnahagsþvinganir og aðrar þvingunaraðgerðir sem Ísland gæti verið miklu sterkari (Forseti hringir.) málsvari fyrir. Síðan er það aðstoð við eftirlifendur, (Forseti hringir.) við fólk sem slasast, t.d. af völdum jarðsprengna. Össur er eitt af helstu stoðtækjafyrirtækjum sem úkraínsk sjúkrahús leita til. Íslensk stjórnvöld mættu athuga hvort eitthvað væri hægt að liðka þar.