154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi það að líta inn á við, hvernig afstaða þess sem hér stendur hefur breyst við þátttökuna í NATO-þinginu, held ég að það sé nú kannski helst það að horfa til úkraínska þingfólksins. Innrás Rússlands í Úkraínu átt sér stað eftir að ég gekk í NATO-þingið, eða varð félagi þar, og það hefur verið mjög áhugavert að hitta úkraínskt þingfólk og átta sig á því hversu alltumlykjandi ástand þetta er fyrir líf þess. Þau eru í þeirri stöðu að stjórnarskrá leyfir ekki annað en að atkvæðagreiðslur og fundir eigi sér stað í þinghúsinu sem er væntanlega stærsta skotmark Rússahers. En þar funda þau og fara bara inn í loftvarnabyrgi ef þess þarf. Rafmagnsleysi og allur sá skortur sem fylgir því að vera í stríði þýðir að þau þurfa náttúrlega að labba 21 hæð upp í íbúðina sína og 21 niður og allt hvað eina og standa náttúrlega frammi fyrir því að ef stríðið tapast og Rússar taka yfir Úkraínu þá eru þau væntanlega bara úr sögunni. Þá er fyrrverandi valdastétt Úkraínu ekkert að fara að kemba hærurnar mikið í framhaldinu.

Varðandi lýðræðisspurninguna, ég held að ég þurfi nú kannski að nota seinna andsvarið í hana en jú, það er heilmikið af lýðræðisríkjum innan NATO en það líka heilmikið af ríkjum sem eru kannski ekki til fyrirmyndar. Vandinn er hins vegar að sum þeirra eru t.d. í Evrópusambandinu og munurinn á Evrópusambandinu og NATO er að ESB á það til að segja þeim til syndanna (Forseti hringir.) á meðan NATO lætur nú ýmislegt „slæda“. Ungverjaland fær að heyra það frá ESB (Forseti hringir.) en Tyrkir fengu að þjösnast ansi mikið á Svíum í kringum aðildarumsóknina án þess að NATO segði mikið.