154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

NATO-þingið 2023.

634. mál
[16:58]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nato-Þingið er skipulagt nokkuð lýðræðislega. Það eru atkvæðagreiðslur, það eru opnar umræður, þar er jafn þátttökuréttur og þar er allt fyrir nokkuð opnum tjöldum. NATO sjálft er það síður. Neitunarvald hvers einasta ríkis verður þess valdandi að ríki sem mæta á fundi með illan ásetning geta haft alveg gríðarleg áhrif. Þannig sáum við Tyrkland t.d. gera alveg fráleitar kröfur til Svíþjóðar í tengslum við aðildarumsóknina. Þeir voru bara að krefjast þess að Svíþjóð gæfi afslátt af þeirri stöðu mannréttinda sem væri í landinu, tæki fram fyrir hendurnar á hæstarétti og væri að framselja fólk hægri, vinstri og allt hvað eina. Jú, jú, þetta ræddum við dálítið á NATO-þinginu og vorum aðeins að munnhöggvast um það en NATO sjálft lét nægja út á við að hvetja Tyrki bara til að samþykkja aðildarumsóknina. Það var aldrei kveðið fastar að orði.

Svo að við tökum aftur hliðstæðuna, Evrópusambandið: Þegar mannréttindum í Ungverjalandi hrakaði svo mikið að þótti stefna í óefni fór Evrópusambandið að grípa til aðgerða, það voru svona ákveðnar, það mætti kalla það refsiaðgerðir, það var gripið í taumana. Það hafði ekki mikið upp á sig af því að týpur eins og Orbán láta sér ekki segjast. En það var þó gert. Þetta er náttúrlega grundvallarmunurinn á Evrópusambandinu, sem er sett upp sem lýðræðisapparat, á meðan NATO er það ekki. (Forseti hringir.) NATO er varnarbandalag fyrst og jú, ekki fyrir tilviljun (Forseti hringir.) en það vill bara svo til að þar innan borðs er fullt af lýðræðisríkjum en þetta er ekki sett upp sem lýðræðisapparat.