154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

aukinn stuðningur við skólakerfið.

[15:16]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og tek undir með þingmanninum þegar hún talar um mikilvægi menntakerfisins annars vegar og hins vegar mikilvægi þess að við tökum fast og þétt utan um niðurstöður PISA sem komu fram fyrir ekki svo löngu síðan. Það er frá því að segja varðandi PISA að við höfum verið að vinna með öllum helstu hagaðilum menntakerfisins, bæði nýrri skólaþjónustustofnun, með háskólunum, með sveitarfélögunum, með Kennarasambandi Íslands og Heimili og skóla að aðgerðaáætlun til að bregðast við PISA. Ég reikna með því að kynna hana í ríkisstjórn á morgun og í framhaldinu verður unnið eftir henni. Markmið hennar er að núna á vormisseri verði farið dýpra í vinnu er varðar PISA-greiningar og undirbúnar aðgerðir sem kæmu inn í næstu aðgerðaáætlun menntastefnu sem kynnt verður á vordögum. Þar erum við m.a. að tala um það sem hv. þingmaður nefnir, sem er að styðja betur við kennara og eins börn með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Ný skólaþjónustulöggjöf er á lokametrunum í smíðum í ráðuneyti mennta- og barnamála og við vonumst til þess að hún komi inn í þingið á þessu vormisseri. Þegar kemur að skólaþjónustustofnun verður hennar hlutverk fyrst og fremst skólaþjónusta, námsgögn, matsferill og mat á skólakerfi og þessum atriðum erum við öllum að vinna að og ætlum að koma hér inn í þingið. Hvað varðar námsgagnaútgáfu þá er vinna í gangi við smíði á nýrri löggjöf þar sem við gerum ráð fyrir því að komi hér inn í þingið, líklega þó ekki fyrr en í haust. Það er spretthópur með í vinnslu núna og á að skila niðurstöðum sem meiningin er að ræða á stórum vinnufundi síðar í þessum mánuði og í framhaldinu förum við að sjá frumvarp.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að auka fjármagn til barna af erlendum uppruna. En við þurfum líka að endurskipuleggja það hvernig við nálgumst þann þátt og þar held ég að við þurfum að taka aukasamhæfingu og árangurstengja fjármagnið meira sem við erum að setja til skólakerfisins og auka mælingar og fleiri þætti sem ég kem kannski betur inn á í seinna svari.