154. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2024.

aukinn stuðningur við skólakerfið.

[15:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hef á umliðnum dögum og vikum fundað markvisst með kennurum og skólastjórnendum, þeim sem koma að skólastarfi, og það er einmitt ákall í þá veru að þau þurfi meiri stuðning, meiri stuðning í formi námsgagna, meiri stuðning í formi ákveðins utanumhalds en líka að þau geti sinnt öllum börnunum, 25, sumir með 28 börn í bekknum með fjölbreyttan bakgrunn. Þau ná ekki að sinna kennslunni, því sem þau hafa ástríðu fyrir. Þess vegna þurfum við að gera kennurunum okkar kleift að sinna öllum okkar börnum, hvaðan sem þau koma, inni í bekknum. Það er ekki að takast núna.

Ég fagna því sérstaklega ef það er þannig að hæstv. ráðherra ætlar að kynna hér frumvarp sem tengist skólaþjónustunni og PISA. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að efla frekar námsgögnin. Það mun skipta kennara miklu máli en ég vona að við séum sammála um það að við þurfum að efla íslenskukennslu fyrir börn af erlendum uppruna. Við þurfum að efla íslenskukennslu fyrir alla þá einstaklinga sem vilja búa á Íslandi. (Forseti hringir.) Íslenskan er lykillinn að því að við verðum enn sterkara samfélag, (Forseti hringir.) lykillinn að enn betri lífskjörum fyrir okkur öll og við megum ekki skilja neina hópa eftir.